29.03.1926
Efri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (2850)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Af öllu því, sem hv. 3. landsk. (JJ) beindi til mín í síðustu ræðu sinni, skal jeg aðeins víkja að einu atriði, því hinu hefir flestu verið þegar svarað af öðrum. Hann fór þeim orðum um þær 150 þús. kr., sem upplýst er að fjelagið „Kári“ varði til viðgerða á skipum sínum 1925, að fjelagið hefði verið að leika sjer að því að braska með 150 þús. kr., auk þess sem það greiddi til Íslandsbanka, í stað þess að greiða með þeim skuldir sínar og þar með ljetta ábyrgð ríkissjóðs. Jeg tel mjer skylt að gefa skýrslu um það, hvaða verk það var, sem var unnið fyrir þessa peninga. Annað skip fjelagsins, Austri, var „boltað“ upp. Það er að segja: settir voru í hann nýir hnoðnaglar og skipið að öðru leyti mikið treyst.

Á fjárhagsnefndarfundi var það upplýst af einum bankastjóranna, að óumflýjanlegt hefði verið að gera við þetta skip, þar sem það hefði verið svo mjög úr sjer gengið eftir „Halafiskirí“. Jeg verð því að mótmæla því, að fjelagið hafi verið að leika sjer með fjeð, þegar það var að láta gera nauðsynlegar umbætur á skipum sínum. Og mjer finst ekki sitja á hv. 3. landsk. (JJ) að vera að knjesetja hæstv. fjrh. (JÞ), þó að hann vilji styðja fjelag þetta, þegar hann, hv. 3. landsk., brestur svo mjög þekkingu á þessum málum, að hann telur fjelagið vera að leika sjer með fjeð, þegar það er að gera skip sín haffær.

Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Jeg er búinn að sýna fram á, að alt það, sem hv. 3. landsk. kallar hneykslismál, er langt frá að vera það, og að öll aðferð hans gagnvart hæstv. stjórn er ekkert annað en tilraun til að gera úlfalda úr mýflugu. Annars hefir hv. 1. landsk. (SE) dregið best saman aðalatriði þessa máls og sýnt glöggvast fram á, hver nauðsyn hafi verið fyrir stjórnina að hlaupa undir bagga með fjelaginu.