29.03.1926
Efri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (2854)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Sigurður Eggerz:

Það hefir nú sýnt sig, hve flokksmenn hæstv. stjórnar elska hana heitt, þegar þeir þora ekki að greiða atkvæði um tillögu þessa. Jeg kalla það sama og yfirgefa stjórnina, því að hjer er ekki verið að ræða um neitt fordæmi, heldur um aðstöðu hæstv. núverandi fjrh. (JÞ) til þessa máls. Það hefir verið kastað hnútum til fyrv. stjórnar, og þá aðallega til fyrv. fjrh., Klemensar Jónssonar, út af afskiftum hennar af þessu máli. En slíkar aðfinslur eru alls ekki rjettmætar. Að fyrv. fjrh. tók þessa ábyrgð á sig, var í og með af velvild hans til útgerðarinnar, og jafnframt fyrir þá sök, að ekki var hægt þá að meta trygginguna sem skyldi. En honum fanst hinsvegar leitt að láta fjelagið falla. Annars þarf jeg ekki að verja sjálfan mig í málinu, því jeg lagði á sínum tíma alls ekki til, að ábyrgðin væri veitt.

Mjer finst nú, að hv. 4. landsk. (IHB) ætti eftir þessa ástaryfirlýsingu að snúa hlutleysi sínu við og greiða atkvæði með stjórninni í þessu máli, því að þessi aðstaða hennar sannar ekkert annað en það, að hún álítur eitthvað gruggugt hjá stjórninni. En jeg get fullvissað hana um, að í þessu máli hefir stjórnin hagað sjer sæmilega.