30.03.1926
Efri deild: 41. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í D-deild Alþingistíðinda. (2864)

87. mál, rannsókn á veg- og brúarstæðum

Flm. (Jónas Jónsson):

Í fyrravetur bar jeg fram tillögu til þingsályktunar, þar sem jeg fór þess á leit við hæstv. stjórn, að hún skýrði þinginu frá, hvernig hún ætlaði að ráða bót á samgöngunum við Suðurlandsundirlendið.

Í það skifti fjekk jeg ekki miklar upplýsingar. En nú hefir komið fram frv. í Nd., sem vera á lausn á því máli. Hvernig því máli reiðir af að lokum, get jeg ekki um sagt, en eftir þeim undirtektum, sem það þegar hefir fengið, er ljóst, að nokkur mótstaða er gegn framgangi þess nú, sjerstaklega frá þingmönnum úr þeim kjördæmum, sem litlar samgöngubætur hafa fengið.

Jeg vík að þessu hjer, af því að jeg óttast, að erfitt kunni að verða að koma þeim samgöngubótum á hjer á Suðurlandi, sem fyrirhugaðar eru, ef það er látið undir höfuð leggjast að gera skynsamlegar umbætur fyrir þau hjeruð, sem orðið hafa út undan að þessu leyti. Því að það er ekki nema eðlilegt, að fulltrúar þeirra telji sig ekki með góðri samvisku geta verið því fylgjandi, að einstök hjeruð fái stórfje í þessu skyni, en þeirra hjeruð sjeu með öllu sett hjá.

Þessi till., sem hjer er til umræðu, fer fram á að bæta úr töluverðu misrjetti, sem átt hefir sjer stað að þessu leyti í þeim hjeruðum, sem hjer eru nefnd. Það stendur nefnilega þannig á, að í þeim hefir að undanförnu lítið verið gert af hálfu hins opinbera til þess að bæta úr samgönguþörf fólksins.

Skal jeg þá víkja nokkrum orðum að því, hvernig jeg hugsa mjer þessa rannsókn, sem einn lið til þess að bæta úr samgöngum landsmanna í heild og greiða fyrir lausn á samgönguvandkvæðum Sunnlendinga.

Það mun nú vera ákveðið hjá flestum þeim, sem hugsa um samgöngumál, að hjeðan og austur yfir Hellisheiði verði annaðhvort lögð járnbraut eða mjög dýr og vandaður vegur, því að milli þeirra hjeraða er samgönguþörfin svo mikil, að önnur samgöngubót en sú, sem tryggir það, að Rvík og Suðurlandsundirlendið nái saman daglega alt árið, er alls ekki fullnægjandi.

Jeg hygg, að fáir geri ráð fyrir, að í tíð núlifandi manna verði lagðir malbikaðir vegir eða járnbrautir nema yfir Hellisheiði, því að það eru litlar líkur til, að þjóðin ráði við slíka vegagerð nema á stuttum köflum.

Næst þessari samgöngubót hafa menn talað um, að tengja þurfi saman Norður- og Suðurland, Reykjavík og Akureyri. Get jeg gert ráð fyrir, að kröfurnar um að flýta þeirri vegagerð verði háværari með hverju ári.

Þó að vegur komist nú á milli Borgarness og Akureyrar, sem fær verður aðeins að sumrinu til, með aukalínum til Stykkishólms og vestur í Dali, þá er þó eftir að tengja saman Norðurland og Austurland, Akureyri og Reyðarfjörð. Tillaga mín miðar að því, að farið verði að byrja á veginum milli Norður- og Austurlands. En ekki um Möðrudalsöræfi, heldur um bygð, yfir Öxarfjörð, Þistilfjörð og Vopnafjörð.

Það er fljótsagt, að af hálfu hins opinbera hefir lítið verið gert í þessum hjeruðum til þess að bæta samgöngurnar. Þannig er t. d. í Vopnafirði aðeins ómerkilegur vegur, sem liggur frá kauptúninu inn í bygðina, og sitt hvoru megin kauptúnsins eru allstórar ár, Selá og Hofsá, báðar óbrúaðar, og ekki einu sinni farið að rannsaka brúarstæði á Hofsá. Þannig er þessi fallegi dalur. Engir vegir liggja um hann, nema troðnar reiðgötur. Alveg eins er í Þistilfirðinum. Þar eru margar ár óbrúaðar. Að vísu hefir ein þeirra verið brúuð áður, en steinboginn, sem settur var á hana, eyðilagðist í vatnavöxtum fyrir nokkru síðan. Og þó að gert verði við þetta að sumri, eins og heyrst hefir, þá er þó ekki annað hægt að segja en að hjerað þetta hafi mjög verið vanrækt hvað samgöngubætur snertir.

Sama er að segja um Öxarfjarðarundirlendið. Þar er mikið óunnið. Og hefir ekkert verið gert þar af hálfu hins opinbera síðan Jökulsárbrúin var bygð 1904–’05.

Vegstæðið frá Breiðamýri að Fnjóskárbrú hefir verið rannsakað dálítið, og mun að líkindum verða auðvelt, að leggja þann veg, en þó er ein stórbrú á þeirri leið, brúin á Skjálfandafljóti, sem þarf að endurbyggja. Hún er ein elsta brú landsins og orðin mjög ljeleg. Í sambandi við síðasta liðinn skal það tekið fram, að í sumar verður byrjað á vönduðum akvegi frá Akureyri yfir Vaðlaheiði, sem gert er ráð fyrir, að fullgerður verði eftir 4–5 ár. Þá vantar veg um Ljósavatnsskarð og yfir í Reykjadal og jafnframt brúna á Skjálfandafljót, til þess að fá samband við veginn að Húsavík. Er því nauðsynlegt, að samhliða Akureyrarveginum verði lokið við þá samgöngubót. Það mundi lengja veginn frá Borgarnesi alla leið til Húsavíkur.

Jeg hefi nú hugsað mjer, ef deildin getur fallist á þessa rannsókn, að þá verði niðurstaðan lögð fyrir næsta þing, svo þinginu gefist kostur á að vita, hvað þessi mannvirki mundu kosta.

Síðasti liðurinn af þessu verki er að leggja akveg yfir fjallvegina milli áðurnefndra hjeraða, veg yfir Reykjaheiði, Öxarfjarðarheiði, Strandir og Hellisheiði, að Jökulsárhlíð.

Mun ekki ofmælt, að Hellisheiði sje langversti kaflinn á allri leiðinni frá Borgarnesi til Reyðarfjarðar, en þar verður endastöð þessa vegar. Og þó að Norðmenn víli ekki fyrir sjer að höggva vegi utan í fjallshlíðar, þar sem ekki verður öðruvísi áfram komist, þá býst jeg nú við, að þetta verði sá hlekkurinn, sem við höggvum síðast sundur. Hugmynd mín er því aðeins, að munað verði eftir þessum liðum í langbrautinni milli Suður- og Austurlands, sem hlýtur að liggja um Norðurland. Bygðirnar verða teknar með á þann hátt, að þær falli inn í þetta sama vegakerfi í framtíðinni.

Jeg hefi ekki gert ráð fyrir, að tillagan gengi gegnum báðar deildir, sakir þess, að jeg álít, að stjórnin geti gert það, sem hjer um ræðir, án tilfinnanlegs kostnaðarauka, með því að hún hefir þá menn í þjónustu sinni hvort sem er, sem gætu framkvæmt þetta.

Nú liggur fyrir þinginu till. um að byggja nýtt strandferðaskip. Með tveim skipum má gera samgöngur á sjó þolanlegar um stund. Hjeruð, sem nú eru afarilla sett, eins og Barðastrandarsýsla, Dalir, Strandir, Norður-Þingeyjarsýsla, Múlasýslur og Austur-Skaftafellssýsla, gætu unað við þær samgöngur. En samhliða þessu kemur svo hin dýra samgöngubót, járnbrautin eða malbikaði vegurinn austur, og höfuðvegurinn norður um Holtavörðuheiði til Reyðarfjarðar, með hliðarálmum til Stykkishólms og Búðardals. Tillaga þessi miðar að því að taka málið alt á nógu breiðum og rjettlátum grundvelli. Norðausturhluta landsins hefir verið gleymt meir en skyldi um samgöngubætur. Sú vanræksla er með öllu óverjandi. Samgönguvandræði þjóðarinnar verða aldrei leyst, nema ef aðgerðir manna, er að umbótunum starfa, eru bygðar á rjettlæti og víðsýni.