30.03.1926
Efri deild: 41. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (2876)

88. mál, björgunar- og eftirlitsskipið Þór

Forsætisráðherra (JM):

Þessi till. er borin fram af sjávarútvegsnefndum beggja deilda og í samráði við stjórnina. Það hefir þótt rjettara og tryggara að öllu leyti, að Alþingi legði samþykki sitt á þennan samning. Að vísu hafði stjórnin heimild til að kaupa skipið samkv. lögum, sem samþ. hafa verið fyrir löngu, og í þeim felst og heimild til þess að ráðstafa rekstri skipsins og notkun um sinn, en vegna þess, að samningurinn við Björgunarfjelag Vestmannaeyja lítur nokkuð fram á leið, þá þótti rjettara að bera málið undir þingið.

Sjálfsagt er að krefja Vestmannaeyjar framlags vegna hinnar sjerstöku gæslu í þarfir þeirra, þótt raunar megi segja, að skipið vinni mikið gagn hinni almennu landhelgisgæslu með veru sinni þar á vetrarvertíð. Það hefir líka sýnt sig síðastliðin 2 ár, að mikið gagn hefir verið að skipinu til strandvarna.

Eðlilega er ekki hægt að fara lengra hjer en að binda samningana við þetta skip, en jeg býst við, að þó annað skip yrði sett í stað Þórs, yrði fylgt svipaðri reglu.

Jeg tel sjálfsagt, að hv. deild samþ. þessa till.