20.04.1926
Neðri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (2885)

88. mál, björgunar- og eftirlitsskipið Þór

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg get tekið undir það með hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að ekki verði ætlast til þess, að hjeruðin sjálf taki þátt í kostnaði við strandvarnir. Ríkissjóður á að bera allan þann kostnað, því strandvarnir eru löggæsla á sjónum, en landhelgin er almenningur, sem öll þjóðin verður jafnt að taká þátt í að verja. Þykir mjer líka sýnt, að svo verði háttað um þessi útgjöld yfirleitt, og því er ekki hægt að ætlast til þess af Vestmannaeyingum, að þeir beri að nokkru leyti útgerðarkostnað strandvarnaskips.

En hjer er og um að ræða veiðarfæragæslu og björgunarstarfsemi. Það má deila um, hvar niður skuli koma kostnaðurinn af björgunarstarfsemi og í hvaða hlutföllum, en það er ekkert álitamál, að mestar kröfur má gera um framlag frá viðkomandi hjeruðum til veiðarfæragæslunnar. En þetta hvorttveggja ber að meta Vestmannaeyingum til verðs. Jeg álít, að 10 þús. kr. myndu vera nægilegt framlag frá þeim og að þeir þyrftu ekki að kvarta undan því. Er það ekki úr leið að veita þeim góð kjör í þessu efni, þar sem þeir hafa nú um langan tíma tekið á sig ærinn strandvarnakostnað, sem annars staðar hefir verið greiddur af ríkinu. Get jeg vel unt Vestmannaeyingum að njóta þess, hve afladrjúgur Þór hefir verið fyrir ríkissjóðinn, og ber því fram brtt., sem jeg mun afhenda forseta. Er hún á þá leið, að í stað „25 þús. kr.“ í lok till. komi: 10 þús. kr.