20.04.1926
Neðri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í D-deild Alþingistíðinda. (2886)

88. mál, björgunar- og eftirlitsskipið Þór

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg ætla að byrja með að gera það að till. minni, þar sem nú hafa komið fram tvær skriflegar brtt., að þessari þáltill. verði vísað til sjútvn. Þetta er hvort sem er fyrri umr., og mun málið þurfa athugunar við.

Jeg er nú ekki alveg viss um, að með brtt. háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) sje um svo mikinn greiða eða gagn fyrir Vestmannaeyinga að ræða og í fljótu bragði virðist. Það er ekki svo, að samrýmanleg sje með öllu landhelgisgæslan og gæsla sú á bátum og veiðarfærum, sem Vestmannaeyingar þurfa að fá haldið uppi. Þess er líka skemst að minnast, að meðan Þór brá sjer nú síðast austur með landi til landhelgisvarna, og það með góðum árangri, biðu Vestmannaeyingar mikið tjón á veiðarfærum sínum. Þetta tvent er því ekki eins samrýmanlegt og menn hyggja. Jeg held, að ef Vestmannaeyingar greiða hæfilegt gjald fyrir gæslu veiðarfæranna, eigi þeir fullan rjett á, að það verkefni verði ekki vanrækt. En jeg er hræddur um, að það verkefni mundi brátt fyrnast úr meðvitund manna, ef þeir borguðu ekkert. Eins og nú er, er hægt að koma fram með tilmæli um, að Þór fari við og við austur með söndum, en það er alls ekki hægt að krefjast þess. En þetta mundi auðvitað breytast, ef vikið væri frá þessum grundvelli. Jeg býst við, að það yrði enginn hagnaður fyrir sjávarútveg Vestmannaeyinga, þó að till. hv. 3. þm. Reykv. (JakM) yrði samþ. En þetta ber sjútvn. að athuga.

Hvað fjárhagshliðina snertir, álít jeg það holla meginreglu, þar sem ríkissjóður verður að leggja fram fje til þess að gæta hagsmuna manna á tilteknum stöðum, að hæfileg fjárframlög komi á móti, til þess að tryggja það, að kröfur þeirra staða verði teknar til greina. Það er einmitt besta tryggingin fyrir þá, sem kröfur gera, að þeir leggi nokkuð á sig. Og þetta er í mínum augum höfuðástæðan til þess, að farið er fram á, að Vestmannaeyingar leggi nokkuð af mörkum. Jeg vildi aðeins gera þessar athugasemdir, til þess að sjútvn., sem væntanlega fær þetta mál, geti tekið tillit til þeirra, ef hún vill.