20.04.1926
Neðri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í D-deild Alþingistíðinda. (2887)

88. mál, björgunar- og eftirlitsskipið Þór

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg get tekið undir það með hæstv. fjrh. (JÞ), að það sje enginn gróði fyrir Vestmannaeyinga að undanþiggja þá öllu gjaldi. Ef þeir borga ekki neitt, verður starf þetta aðeins skoðað sem aukastarf, er eigi þarf að rækja, þar sem aðalstarfið sje landhelgisgæsla, og verður það þeim því einskis nýtt. En það er Vestmannaeyingum mikilsvert starf, að gætt sje veiðarfæra þeirra og fiskimiða. En það er ekki hægt að samrýma þetta, landhelgisgæslu við suðausturströndina og eftirlit með veiðarfærum í Vestmannaeyjum, vegna þess, að mest af afla þeim, sem eyjaskeggjar veiða, er utan landhelgi. Landhelgisgæsla Þórs verður því aukastarf, sem ekki má byggja of háar kröfur á.

Jeg ætla ekki að koma hjer fram með neinar brtt., en býst við, að till. hæstv. fjrh. (JÞ) um að vísa málinu til sjútvn. verði samþ., enda tel jeg sjálfsagt, að nefndin fái þáltill. til athugunar.

Vegna þess, hve margir aðrir en Vestmannaeyingar njóta góðs af gæslu Þórs, get jeg gengið inn á lægri upphæð en farið er fram á í till., jafnvel alt niður í 15 þús. kr. En jeg vil minna á það, að gæslan við Vestmannaeyjar má alls ekki skoðast sem aukastarf.