20.04.1926
Neðri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (2890)

88. mál, björgunar- og eftirlitsskipið Þór

Sigurjón Jónsson:

Jeg vil leyfa mjer að gefa nokkrar upplýsingar út af ummælum háttv. 2. þm. Reykv. (JBald), þar sem hæstv. forsrh. (JM) er ekki á fundi. Á fundi sjútvn. tók hæstv. forsrh. (JM) einmitt fram ástæðuna fyrir því, hvers vegna hann vildi, að till. þessi kæmi fyrir þingið. Og hún var sú, að kaupunum fylgdu nú þær kvaðir, sem hann vildi, að kæmu hjer fram, annaðhvort til samþ. eða synjunar. Hann lýsti því og yfir, að hann hefði fulla lagaheimild frá í fyrra til þess að gera út um kaupin. En honum fanst rjettara, að þingið fengi að segja álit sitt um kvaðir þær, er nú fylgdu.

Jeg sje ekkert á móti því, að sjútvn. fái málið til athugunar, enda þótt sjútvn. beggja deilda í fyrra hafi komið sjer saman um tillögugrundvöll þann, er hjer er borinn fram. En því var nú þá svo háttað, að nokkrum þingmönnum úr Nd. þótti gjaldið of hátt, og sumir vildu jafnvel, að ekkert gjald yrði greitt af Vestmannaeyingum fyrir gæslu Þórs þar, þar á meðal 3. þm. Reykv. (JakM), og var jeg einnig mjög nærri því. Sje jeg því ekkert á móti því, að málið komi til nefndarinnar aftur. Eru líkindi til, að við getum orðið á eitt sáttir um till. í því.