23.02.1926
Efri deild: 12. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í D-deild Alþingistíðinda. (2905)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer skildist á hv. flm. þessarar till. (EP), að hann færi í raun og veru ekki fram á, að byrjað væri á þessu ári á framkvæmdum þeim, sem ráðgerðar eru í lögunum um fyrirhleðslu fyrir Þverá og Markarfljót frá 1917, heldur að málið yrði rannsakað og reynt, ef unt væri, að veita nokkru af vatninu úr núverandi farvegi Þverár í Markarfljót. Jeg get lýst því yfir fyrir hönd stjórnarinnar, að hún er fús á rannsóknir og framkvæmd í þessu máli, ef ráðunautar hennar álíta verkið framkvæmanlegt og kleift þykir kostnaðar vegna. En á það verður að líta, að ekki er víst, að viðgerð sú, er fram færi, dygði nema stuttan tíma, og því væri ófært að leggja í mikinn kostnað. Jeg hefi átt tal um þetta við vegamálastjóra, og álítur hann ekki útilokað, að hægt sje að gera þarna gagn með litlu fje, og held jeg, að hann hafi nefnt 2–5 þúsund krónur. Hann sagði, að afstaðan breyttist árlega, þar sem þessi vötn koma saman. Tjáði hann sig fúsan á að rannsaka þetta og sjá um framkvæmdir, ef kleift þætti kostnaðar vegna. Hann hugsar sjer framkvæmd verksins á líkan veg og hv. flm. (EP), að fengið yrði hrís eða skógviður frá Þórsmörk og haft í einskonar bandvef í fyrirhleðsluna. — Mjer skilst á hv. flm. (EP), að ekki sje meiningin að leggja mikið í kostnað við rannsókn brúarstæðis á Þverá, ef hægt yrði að stemma stigu fyrir hana þarna inn frá, enda segir vegamálastjóri, að mjög örðugt myndi að brúa ána og ekki kosta innan við 200 þús. krónur, og auk þess gæti komið fyrir, að áin breytti farveg sínum og að brúin yrði á þurru landi. Hyggur hann því ráðlegra, að reynt sje að breyta farveginum við vatnaskil og veita sem mestu af Þverá í burtu. Sú ráðagerð er í lögunum frá 1917. En þá þarf að gæta þessi vandlega, að Markarfljót nái ekki að renna austur með Eyjafjöllum.

Eins og jeg hefi tekið fram, mun stjórnin fús á að lofa til þessa fyrirtækis 2–5 þús. krónum, ef álitið er, að verulegt gagn verði að verkinu, en annars mun hún í þessu efni haga sjer mjög eftir tillögum vegamálastjóra.