05.03.1926
Efri deild: 20. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (2909)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Frsm. (Ágúst Helgason):

Hv. flm. þessarar tillögu hefir fært skýr rök fyrir því, að mikla nauðsyn beri til að afstýra því tjóni, sem Þverá veldur, bæði landbrotinu og samgönguteppunni. Sje jeg því ekki ástæðu til að auka við þá röksemdaleiðslu hans.

En þar sem jeg veit ekki, hvort öllum háttv. þm. er kunnugt um, hvernig landslagi er háttað þar eystra, vil jeg með nokkrum orðum leitast við að gera þeim það ljóst.

Þar sem Markarfljót kemur niður úr fjallaþrönginni, inst með Fljótshlíðinni, tekur við flatlendi, sem smábreikkar eftir því sem neðar dregur. Liggur Fljótshlíðin á aðra hlið, en Eyjafjöllin á hina.

Markarfljót hefir borið kynstrin öll af auri niður á þetta flatlendi og hlaðið undir sig, svo að það í vatnavöxtum flæðir yfir stór svæði og myndar nýja farvegi. Einn slíkan farveg hefir það fyrir löngu brotið sjer til vesturs, inst með Fljótshlíðinni, og lent þar í smáá, sem hjet Þverá og heitir því nafni enn. Við þetta framrensli úr Markarfljóti varð hún að þeim skaðræðisgrip, sem búið er að lýsa. Áraskifti eru að því, hve mikið vatn fellur úr Markarfljóti í Þverá. En nú um langt skeið hefir það verið líkt.

Það hefir mikið verið um það hugsað, hvernig koma mætti í veg fyrir það tjón, sem Þverá veldur.

Meðal annars voru sett lög 1917 um það, að byggja fyrir þetta framrensli Markarfljóts í Þverá og vernda þar með þær jarðir, sem að henni liggja, en það verk hefir ekki komist í framkvæmd enn, og lítur út fyrir, að bændur þar eystra sjeu farnir að verða vonlitlir um, að það muni nokkurn tíma komast í framkvæmd, því að nú kemur frá þeim ósk um það til Alþingis að fá brú á Þverá.

Eins og getið er um í nál., leitaði samgöngumálanefndin álits vegamálastjóra um þetta mál. Var hann eindregið á þeirri skoðun, að eina mögulega leiðin til þess að koma í veg fyrir tjónið, sem Þverá veldur, væri sú, að hlaða utan að Markarfljóti, þannig að það haldist sem mest í einum ál til sjávar, og þarf þá jafnframt að brúa það vestanvert við Eyjafjöll hjá svonefndum Litla Dímon. Með slíkri fyrirhleðslu og brú á Markarfljóti væri mikið unnið.

Í fyrsta lagi væri komið í veg fyrir landspjöll þau, sem Þverá veldur. Jafnframt væri gert fært að leggja akfæran veg austur undir Eyjafjöll og jafnvel austur í Mýrdal. Og ennfremur væri friðað fyrir vatnagangi stórt landflæmi, sem fljótlega mundi gróa upp og með tímanum verða að frjósömu landi.

Að brúa Þverá í þeim farvegi, sem hún er nú, hygg jeg tæplega að gæti komið til mála, þar sem framrensli Markarfljóts er svo breytilegt, að það getur fyr en varir verið lagst í annan farveg, svo að aðalvatnsmegnið úr Þverá væri komið í annan ál, sem væri þá jafnófær yfirferðar og Þverá er nú, en brúin þá jafnvel á þurru landi. Það var því eindregið álit vegamálastjóra, að ótækt væri að brúa Þverá, eins og nú standa sakir. Hafði hann jafnvel þau orð um það, að það væri hreinasta óvit.

Nefndin er því á einu máli um það, að stefna beri að því að hlaða utan að Markarfljóti, svo að það haldist í einum ál, og brúa þar öll þessi vatnsföll í einu. En þar sem undirbúningur þess hlýtur að taka nokkum tíma, telur nefndin rjett, að gerð sje bráðabirgðafyrirhleðsla fyrir Þverá þegar á þessu ári, sem tilraun til þess að bægja vatninu austur á bóginn frá Fjótshlíðinni. Hefir vegamálastjóri áætlað, að sú fyrirhleðsla muni kosta alt að 5000 krónum.

Jeg leyfi mjer svo að leggja til, að till. verði samþykt eins og nefndin hefir orðað hana.