05.03.1926
Efri deild: 20. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í D-deild Alþingistíðinda. (2910)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Sigurður Eggerz:

Jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara. En jeg er sammála samgmn. um það, að æskilegasta lausnin á þessu máli er sú, að hægt væri að fara þá leið, sem hv. frsm. (ÁH) leggur til. Með því er ráðið fram úr tvennu í einu, samgönguvandræðunum og jörðunum bjargað undan búsifjum frá ánni. Þá mætti segja, að komið væri beint samband milli Reykjavíkur og Víkur. Jeg álít, að hjer sje á ferðinni mjög stórt mál fyrir Rangárvalla- og Skaftafellssýslur, sem æskilegt væri að ýta sem fyrst fram. Fyrirvari minn snertir það, að ef svo færi, að ekki þætti fært að fara þá leið, sem hv. frsm. leggur til, þá er jeg ekki viss um, að það sje rjett, sem verkfræðingurinn segir, að ógerningur sje að brúa Þverá. Jeg vil ekki kveða svo skarpt að orði. Jeg er nokkuð kunnugur staðháttum þar eystra og veit, að áin hefir mjög lengi runnið í þeim farveg, sem hún rennur nú í. Jeg er ekki vel trúaður á allar athugasemdir verkfræðinganna um það, að ár breyti um farveg. Jeg man eftir því, að þegar jeg var fyrst að berjast fyrir brú á Jökulsá á Sólheimasandi, þá sögðu verkfræðingarnir, að hún mundi hlaupa úr farvegi sínum, og tafði þetta málið lengi. Jeg vildi því óska, að það væri tekið vel til athugunar, hvort ekki væri hægt að brúa Þverá, ef ekki þætti fært að fara þá leið, sem hjer er lögð til.