05.03.1926
Efri deild: 20. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (2915)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Frsm. (Ágúst Helgason):

Jeg vona, að það verði ekki hart tekið á nefndinni, þó að hún feldi niður tillöguna um að rannsaka brúarstæði á Þverá, þar sem vegamálastjóri fór svo hörðum orðum um þá brúargerð, að hann taldi það hreinasta óvit. Nefndinni fanst ekki ástæða til að mæla með því, að fje yrði kostað til framkvæmda, sem vegamálastjóri stæði fast á móti. Jeg hygg, að hæstv. Alþingi mundi ófúst á að veita fje til brúar, sem vegamálastjórinn teldi óvit í að láta byggja. Þó að Þverá yrði brúuð og hún hjeldist í sínum farvegi, væri samt ekki að fullu bætt úr samgönguteppunni, því að þá er samt eftir óbrúað Affallið, Álar og Markarfljót, sem alt eru allmikil vötn hvert um sig og erfið yfirferðar, og geta oft verið alófær. Að sameina öll þessi vötn í einn farveg og brúa þau öll í einu, virðist mjer að sje eina rjetta leiðin til að bæta úr þessum vandkvæðum.