13.03.1926
Neðri deild: 30. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í D-deild Alþingistíðinda. (2920)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Jón Kjartansson:

Þó að jeg eigi sæti í samgmn., þykir mjer hlýða að segja nokkur orð. Það er alveg rjett hjá hv. 2. þm. Rang. (KlJ), að þetta mál leit öðruvísi út, þegar það kom inn á þing en það gerir núna á þskj. 96. Samgmn. Ed. hefir breytt málinu í þetta horf, og þó að sú breyting sje ekki stórvægileg, tel jeg hana mjög til bóta.

Jeg ætla ekki að fara að lýsa landspjöllum þar eystra af völdum þessara vatna. Þau munu vera öllum hv. þdm. kunnug, enda mintist hv. 2. þm. Rang. (KlJ) nokkuð á þau. Jeg hugsa því, að flestir hv. þdm. viti, hvernig þarna er umhorfs nú. En á hitt vil jeg minnast með fáum orðum, hve mikil samgönguteppa er þarna á láglendinu af völdum vatnanna. Sú hlið málsins er svo veigamikil, að fram hjá henni má ekki ganga, ef horfið væri að hinum öðrum lið tillögunnar, eins og hún var í upphafi. Þó að gengið hefði verið að 2. lið upphaflegrar till., væri þar með engin fullkomin úrlausn fengin, því að þó að brú fengist yfir Þverá í þeim farvegi, sem hún nú er í, þá er engin bót fengin fyrir Affallið, Álana og Markarfljót, en þau vatnsföll eru oft og tíðum eins ill yfirferðar og Þverá, enda hygg jeg, að austurhluti Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýsla væru jafneinangraðar eftir sem áður, þó að brú kæmi yfir Þverá í þessum farvegi.

Það hefir mikið verið um það hugsað að undanförnu, á hvern hátt yrði bætt úr landspjöllum eystra af völdum vatnanna, og lengst komst Alþingi 1917, þegar það afgreiddi lög um fyrirhleðslu fyrir Þverá og Markarfljót, en þau lög hafa aldrei komið til framkvæmda, og hygg jeg, að bændur eystra sjeu orðnir vondaufir um, að svo muni verða í bráðina, og því sje það, að nú hefir þinginu borist áskorun frá þeim um að fá brú yfir Þverá eins og hún rennur nú. En jeg vil leggja mikla áherslu á það, að hvað sem framkvæmt kann að verða í þessu máli, verði það gert í anda laganna frá 1917. Við það vinst tvent. Í fyrsta lagi verður spornað við landspjöllum af völdum Þverár og sömuleiðis af völdum Markarfljóts undir Eyjafjöllum, og í öðru lagi er þetta ágæt samgöngubót eystra. Um leið og vötnin verða brúuð öll í einum stokki, er kominn akvegur alla leið austur í Mýrdal. Hins vegar er jeg sammála hv. 2. þm. Rang. (KlJ) í því, að jeg tel mjög vafasamt, hvort gagn er að tillögu þeirri, sem hjer liggur fyrir, því að það sjá allir menn, að 5 þús. krónur hrökkva ekki langt til slíkra framkvæmda. Ef nokkuð er aðhafst, sem ekki er bygt á rækilegum undirbúningi og fullkominni rannsókn, má eins búast við, að alt sje unnið fyrir gíg.

Jeg tel sjálfsagt, að mál þetta fari til samgmn., og fari svo, að hún mæli með tillögunni eins og hún er nú, vil jeg taka það fram, að jeg fyrir mitt leyti geri það með því móti einu, að upphæðin sje aðeins skoðuð sem áætlunarupphæð.

Vil jeg svo mæla með því, að málið gangi til nefndar, og vona jeg, að því verði vel tekið af hv. deild, enda þótt nefndin hjer vilji líta stærri augum á þetta mál en hv. samgmn. Ed.