29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í D-deild Alþingistíðinda. (2927)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Frsm. (Klemens Jónsson):

Jeg get verið ánægður með undirtektir hæstv. atvrh. Hann sagðist þó eigi geta lofað neinu ákveðnu, en vegamálastjóri sagði það skýrt við samgmn., að hann gæti lokið rannsókn og undirbúningi í sumar, og jeg vona, að hæstv. atvrh. (MG) ýti undir það.

Það er rjett, að álit sýslunefndar getur ekki verið komið fyrir næsta þing, nema hún haldi aukafund. Og jeg tel það ekki eftir henni, þar sem um slíkt stórmál er að ræða.

Samgmn. leggur þó ekki mikla áherslu á neinar framkvæmdir í sumar, nema trygging sje fyrir því, að þær komi að gagni.

Það er sjálfsagt rjett, sem hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, því að hann ber betri kensl á þessi mál en jeg. En það er einmitt rannsóknin, sem á að fara fram fyrir næsta þing, sem ætti að geta leitt í ljós, hvaða leið skuli valin.

Vona jeg svo, að till. verði samþ. með viðaukanum.