09.03.1926
Neðri deild: 26. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

3. mál, happdrætti og hlutaveltur

Jón Baldvinsson:

Í raun og veru dró hæstv. forsætisráðherra það út úr ummælum mínum, sem jeg ekki hefi látið í ljós, og hóf ræðu sína með því að segja, að við hefðum sitt hvora skoðun, að jeg vildi hafa mikið af þessum samkomum, en hann ekkert. Jeg hefi ekkert um það sagt, og þess vegna getur hæstv. ráðherra (JM) ekki dregið þetta út úr mínum ummælum, hvorki nú nje fyr. En jeg verð að segja það alment um málið, að jeg get gjarnan verið með því að setja þröng lög, en jeg álít, að í samningn þeirra eigi að líta á það, á hvern hátt slíkum lögum verði best framfylgt. Jeg held, að það muni verða farið afskaplega í kringum þessi lög. Hvað veit dómsmálaráðuneytið t. d. um, þótt haldið kunni að verða happdrætti innan fjelags vestur á landi? En væri það, sem jeg vil vera láta, að bæjar- og sveitarstjórnir hefðu umráð yfir þessu, þá mundu slík undanbrögð ekki höfð. Þetta er það, sem snertir framkvæmd laganna, og það verður hæstv. forsætisráðherra að játa, að svona verður framkvæmdin auðveldari, þó að líklegra sje, að það komist fram, sem hæstv. ráðherra vill vera láta. Hæstv. ráðherra sagði, að hlutaveltur væru orðnar plága, og það er náttúrlega rjett að sumu leyti. En út af því, sem hæstv. ráðherra benti á, að það væri undarlegt hjá mjer að vilja láta sveitar- og bæjarstjórnir veita leyfi til happdrætta, en láta hitt standa, að lögreglustjóri veitti leyfi til þess að halda hlutaveltur, þá vil jeg henda á, að stjórnin hefir sjálf gefið það fordæmi, að hún skifti þessu á milli dómsmálaráðuneytisins og lögreglustjóra, og hefi jeg látið þá skiftingu halda sjer, og þess vegna getur hæstv. forsætisráðherra ekki fundið því neitt til foráttu, að jeg hefi látið það standa. Hæstv. ráðherra vildi láta það líta svo út, ef mín brtt. yrði samþykt, sem hver maður hefði þá leyfi til þess að halda happdrætti, en mjer finst líklegast, ef lögin verða samþykt óbreytt, að það muni verða meira um happdrætti heldur en ef mín brtt. verður samþykt; en mjer finst eðlilegra að eftirlitinu verði þannig fyrir komið, hverjir sem með það eiga að fara, að það sje virkilega hægt að líta eftir því, að lögin verði ekki brotin.