08.05.1926
Sameinað þing: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í D-deild Alþingistíðinda. (2932)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Klemens Jónsson:

Jeg get látið mjer nægja stutta framsögu. Um fyrri liðinn þarf ekki að fjölyrða. Hann var samþyktur með miklum atkvæðamun í báðum deildum. Það er þá aðallega seinni liðurinn, sem jeg þarf að gera stuttlega grein fyrir.

Í till. þeirri, sem samþ. var í Ed., var ríkisstjórninni heimilað að verja á þessu ári 5000 kr. til þess að fyrirbyggja með fyrirhleðslu framrensli Markarfljóts í Þverá. Samgmn. Nd. taldi, að það mundi vera gagnslaust kák að verja svona lítilli upphæð til þessa, það væri sama og kasta peningunum í sjóinn. Nefndin hefir líka talað við landsverkfræðinginn um þetta mál, og hann telur svona litla upphæð ekki munu koma að notum, en hann er sammála nefndinni um það, að gera beri nákvæma rannsókn þar eystra. Samkv. lögum nr. 69 1917 er heimilt að gera rannsóknir austur þar, en lítið hefir verið gert í því máli enn. Fyrst sýslan hefir nú orðið að bíða svona lengi, þá virðist sem hún gæti þolað bið eitt ár enn, ef nákvæm rannsókn gæti farið fram á þeim tíma. En það dugir hins vegar ekki að fresta henni lengur. Þverá hefir nú þegar gert mikinn skaða í Fljótshlíðinni, einkum í Múlakoti. Landsverkfræðingurinn hefir lýst yfir því, að hann treysti sjer, með einhverri aðstoð, að annast þetta fyrir næsta þing. Jeg samdi nál. og sendi honum það til yfirlestrar áður en það var prentað, og hann gerði á því smávægilegar breytingar, sem teknar voru til greina, svo honum er fullkomlega kunnugt um, hvað hjer hefir verið sagt, og hefir gert það að sínum orðum. Ef rannsóknin á að vera búin fyrir næsta þing, þá kostar það aukasýslufund, því að þar sem sýslan á að bera ¼ hluta kostnaðar, þá er ekki nema eðlilegt, að sýslunefndin fái að segja álit sitt um þetta mál áður en það er lagt fyrir þingið. En jeg tel það ekki eftir, þótt kveðja þyrfti til aukasýslufundar, þar sem hjer er að ræða um mjög mikilsvarðandi mál fyrir sýsluna.

Jeg skal að endingu geta þess, að hæstv. fjrh. (JÞ) lýsti yfir því, að hann þekti þetta mál frá fornu fari, og hann áleit, að framkvæma bæri þetta verk smátt og smátt. Við verðum yfirleitt að treysta því, að verkfræðingarnir framkvæmi þetta verk svo vel sem unt er, og jeg hefi ekki ástæðu til að efast um, að núverandi landsverkfræðingur ráði því til lykta á hinn haganlegasta hátt.