08.05.1926
Sameinað þing: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (2936)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer finst engin sjerstök ástæða til þess að ræða þetta mál lengi. Það hefir verið rætt í báðum deildum og verið gott samkomulag um till. yfirleitt. Jeg tel líka sjálfsagt, að till. verði samþ. í því formi, sem hv. Nd. hefir fallist á. Það er sjálfsagt, að landsverkfræðingur verði beðinn að gera þessar rannsóknir eins fljótt og honum er unt, samhliða öðrum störfum, sem á honum hvíla.

Jeg verð að líta svo á, að ekki sje þörf á því að fá útlendan verkfræðing til þess að rannsaka þetta, eins og hv. þm. N.-Þ. (BSv) drap á. Þetta er þegar nokkuð rannsakað, og auk þess munu innlendir menn alt eins vel til slíks færir. Þeir þekkja betur, hversu jökulvötn haga sjer hjer á landi, t. d. á vetrum, hvernig þau frjósa o. s. frv. En hitt þykir mjer vænt um, sem hv. 2. þm. Rang. (KlJ) sagði, að þessari rannsókn þyrfti ekki endilega að vera lokið fyrir næsta þing, og ef svo er lit- ið á, þá sje jeg ekki, að það sje neinn ágreiningur milli þingmanna hjeraðsins (EP og KlJ), þó þessi breyting, sem hv. Nd. gerði á till. hv. 1. þm. Rang. (EP), verði samþykt. Mjer skilst þessi hv. þm. (EP) ekki heldur hafa neitt við þetta að athuga. Á það bendir hin upphaflega till. hans.

Um framkvæmdir á þessu ári, þá er tilgangurinn sá að reyna að ná einhverju af vatnsmegni Þverár í Markarfljót, en þó svo, að austursveitunum sje við engu hætt.