08.05.1926
Sameinað þing: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í D-deild Alþingistíðinda. (2938)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Benedikt Sveinsson:

Jeg vildi segja fáein orð út af því, sem hæstv. atvrh. (MG) sagði viðvíkjandi því að leita til erlendrar reynslu og þekkingar um það að beina jökulvötnum til sjávar. Jeg verð að halda því fram, að það sje engin fjarstæða að þiggja ráð af þeim erlendum vatnsvirkjafræðingum, sem hafa sjerþekkingu í því að beina rensli fljóta og setja þeim skorður. Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að slíkt kæmi ekki til mála, af því þeir þektu ekki til um rensli fljóta hjer á landi, nje heldur hvernig þau höguðu sjer og frysu á vetrum. Það þektu verkfræðingar vorir miklu betur. Jeg veit líka, að til eru hjer á landi menn, sem eru miklu kunnugri rensli jökulvatna en nokkur af verkfræðingum landsins, svo að það er ekki það, sem hjer varðar mestu. En jeg held sannast að segja, að vötn renni hjer til sjávar eftir sama lögmáli og hvar annarsstaðar. Og víðar frýs vatn en hjer á landi. Þetta er því tómur fyrirsláttur. Eins og menn vita, þá er víða um lönd mikið gert að stórkostlegum vatnsveitingum og mikil þekking og reynsla fengin í þeim efnum, t. d. í Þýskalandi, Hollandi, á Balkanskaga, Egyptalandi, Mesopotamíu o. s. frv. Og þó ekki væri seilst suður í Blálönd eftir manni til þessara rannsókna, sem vjer þurfum að láta gera, þá mun auðvelt að fá mann af germönsku kyni til þess að leysa þetta af hendi. Hjer mun ekki stoða að hlaða saman hrísi og torfi, svo sem að fornu hefir gert verið, heldur reisa aðrar rammari skorður, er standist hvað sem á dynur. Auk þess mun landsverkfræðingur hafa ærið að starfa sjálfur, og þótt hann hafi eitthvað af ungum mönnum sjer til aðstoðar, þá mun varla vera rjett að vænta þess, að þeir hafi þá þekkingu, sem hjer verður að heimta og brýn nauðsyn er á.

Jeg tel skyldu mína að benda á þetta, því að þetta mál mun seint of vandlega hugað. Enda ber raun vitni, að hjer er sjaldan of vel frá slíkum rannsóknum gengið. Nægir í því efni að minna hv. þm. á ýmsa brimbrjóta, rafmagnsveitur og fleiri verkleg fyrirtæki, sem mjög hafa farið á annan veg en til var stofnað í upphafi.