05.05.1926
Neðri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (2947)

86. mál, rýmkun landhelginnar

Sveinn Ólafsson:

Jeg stend upp til þess að ljá liðsyrði í þessu máli og jafnframt til þess að þakka hv. þm. Borgf. (PO) fyrir þrautseigju hans og áhuga í þessu efni. Jeg hygg, að hann hafi hreyft þessu máli á einhvern veg á hverju þingi síðan 1919, er fyrst var samþ. ákveðin till. til þál. um tilraun til útfærslu landhelgissvæðisins.

Mjer fanst hv. flm. (PO) leita eftir áliti þeirra manna, sem langvinna reynslu hafa um grunnmiðaveiði, hvort henni hefði hnignað mjög eða ekki og hver áhrif hin útlenda togaraveiði mundi hafa haft á grunnmiðum. Hvort sem þetta var rjett skilið hjá mjer eða ekki, þá þykir mjer rjett að geta þess, að jeg hefi sjálfur haft tækifæri til þess að átta mig á breytingu grunnmiðaveiðinnar síðustu 50 ár, því að jeg hefi altaf á sjávarbakka búið og alla tíð átt einhvern þátt í fiskveiðum á grunnmiðum. Jeg veit það, að smábátaveiðin hefir gengið alveg ótrúlega úr sjer, og það er alviðurkent, að þetta stafi af því, hvernig farið hefir verið með grunnmiðin, eða uppvaxtarstöðvar ungviðisins, af veiðivörgunum útlendu. Enda hafa á ýmsum stöðum við strendur landsins engar landhelgisvarnir verið, svo sem fyrir Austfjörðum. Mjer er það því ljóst, að á engan hátt er hægt að gera smábátaútveginum, og fiskveiðunum raunar yfirleitt, meiri greiða heldur en ef hægt væri að fá friðuð þessi klaksvæði, firði og flóa, og færð utar á landgrynnið, þar sem ungviðið vex upp.

Frá því byrjað var að leita samninga um útfærslu landhelginnar, eftir þál. frá 1919, hefir að vísu ekkert þokast um takmörk hennar og engin áheyrn fengist hjá þeim, sem hjer veltur mest á. En á síðari árum hefir samt hilt undir hjá Bretum nokkuð annan skilning á málinu en áður. Þeim virðist nú — fremur en áður — vera að skiljast, að hjer er um að ræða hagsmunamál fyrir þeirra eigin fiskiflota. Þeir sjá, að miðin utan landhelgi ganga úr sjer, vegna þess að klakstöðvar fá ekki að vera í friði. Og þessi skilningur gefur aukna von um það, að málið muni hafast fram um síðir. Jeg verð því að leggja mikla áherslu á það, að sá verði upp tekinn, sem þessi till. bendir til, að sendir verði hæfir menn til Englands til að leita samninga og upplýsa málið, en ekki bygt eingöngu á þessari skriffinskuleið milli utanríkisstjórnanna, sem farin hefir verið til þessa.

Jeg veit að vísu, að Norðmenn hafa, enn sem komið er árangurslaust, gert miklar og ítrekaðar tilraunir til þess að fá landhelgina færða út og viðurkenda þá gömlu fjarlægð frá landi, 4 sjómílur, en Bretar hafa ekki viljað ganga inn á það. Þó hefir það komið í ljós við þær málaleitanir, að Bretar eru ekki eins einbeittir í að neita nauðsyn þess eins og þeir voru áður.

Það vottar einmitt nú fyrir þeirri viðurkenningu hjá Bretum og fleiri þjóðum, að hagsmunir allra, sem veiða utan landhelgi, heimti aukna friðun, á hrygnistöðvum nytjafiskanna, og jeg lít svo á, að þessi till. sje vænleg til góðs árangurs, ef henni verður framfylgt með forsjá og festu, einmitt á þann hátt, sem hjer er farið fram á.