05.05.1926
Neðri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í D-deild Alþingistíðinda. (2949)

86. mál, rýmkun landhelginnar

Jón Baldvinsson:

Þetta er mikið og merkilegt mál; en jeg hygg, að öllum sjeu ljósir annmarkar á því. Hjer er talað um rýmkun landhelginnar alment, en jeg hygg, að mikill vandi verði að fá því framgengt. Hitt gæti frekar komið til mála, þegar búið er að sanna vísindalega, að hætta sje á eyðileggingu fiskimiðanna, að þá fengist rýmkun. Jeg held, að það sje einhver misskilningur, að ekki þurfi annað en samkomulag við Breta. Við höfum að vísu ekki beina samninga við aðra, en ætli Þjóðverjar og Frakkar litu ekki svo á, að þetta hlyti að ná til allra þjóða, sem hjer fiska. Það gæti verið spurning, hvort Íslendingar ættu ekki að fara svipað að og Bretar hafa gert. Það gæti vel verið, að þeir bentu okkur á, að rjett væri, að við sýndum þetta í verkinu með því að banna okkar eigin skipum að fiska á vissum svæðum. Jeg er ekki viss um, að það verði auðgert að sanna útgerðarmönnum í Englandi, hvað hjer er í hættu. Jeg held því, að þetta mál sje hreint og beint eitt af þeim málum, sem eiga heima í þjóðabandalaginu. Það væri ein leiðin, að Íslendingar þreifuðu fyrir sjer hjá þjóðunum, hvernig því yrði tekið, að Íslendingar, vegna þeirra sjerstaka atvinnuvegar, teldu nauðsynlegt að færa út landhelgina.

Jeg er hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) alveg sammála um, að það er óhjákvæmileg nauðsyn að sanna vísindalega, hvernig hættunni er varið og hvar hún er mest. Það vill einmitt svo vel til, að við eigum mann, sem getur helgað sig þessum rannsóknum. Stjórnin hefir þennan mann í þjónustu sinni og getur lagt fyrir hann að vinna úr þeim athugunum, sem gerðar hafa verið, og framkvæma nýjar rannsóknir.

Mín skoðun er sú, að það sje ekki nægilegt, sem till. fer fram á, nefnilega að leita einungis samkomulags við Breta, heldur á að fara lengra, og líklegasta leiðin er sú, að fara til þjóðabandalagsins. Jeg veit, að það er miklu erfiðara að fá þessu framgengt nú en fyrir stríð, af því að sjávarútvegurinn á svo miklu erfiðara uppdráttar nú. Jeg held, að þó að England sje stærsti aðilinn, þurfi einnig að fara til annara þjóða. En sennilega tekur það langan tíma, og er rjett af stjórninni að halda málinu vakandi, og það verða sjálfsagt margir, sem fylgja því með athygli. hvað gerist í þessu máli.