09.03.1926
Neðri deild: 26. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

3. mál, happdrætti og hlutaveltur

Magnús Jónsson:

Jeg ætla ekki að taka þátt í umr. um brtt. á þskj. 71, nje heldur fara að ræða málið alment. Jeg vildi aðeins vekja máls á því, að það er dálítið óviðkunnanlegt, að í fyrirsögn frv. eru tekin upp útlend orð, sem sýnast vera alveg óþörf og töluvert til lýta. Íslensku orðin hafa fengið svo mikla venju á sig, að það er óþarft að útskýra þau. Nú má vona, að þetta frv. verði samþykt óbreytt, og er því ekki annað ráð til að breyta þessu, sem jeg hygg, að hv. þdm. muni vilja samþykkja, en að bera fram skriflega brtt. Hún snertir aðeins fyrirsögn frv. og er um það, að útlendu orðin verði feld niður. Vil jeg leyfa mjer að afhenda hæstv. forseta hana, með tilmælum um, að greitt verði fyrir henni, því að bæði er hún of seint fram komin og þar á ofan aðeins skrifuð. Verði brtt. á þskj. 71 feld, þá verður þessi brtt. mín til þess, að málið þarf aftur að fara upp í hv. Ed., en engin hætta getur málinu stafað af því svona snemma á þingi.