07.05.1926
Efri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í D-deild Alþingistíðinda. (2960)

86. mál, rýmkun landhelginnar

Jónas Jónsson:

Þar sem hæstv. forsrh. (JM) hefir nú mælt með því, að þessi till. verði samþ., þá vildi jeg fá að vita dálítið nánara hjá honum en kom fram í ræðunni, á hverju það byggist, að nokkuð þýði að samþ. þessa till. Flestum öðrum en kanske hæstv. ráðh. og hv. flm. mun vera það ljóst, að alt skraf í þessa átt er ekki annað en fróm fjarstæða, til þess að hafa milt orð. Það þarf ákaflega mikla vanþekkingu á hinni pólitísku aðstöðu í heiminum til þess að hafa trú á því, að okkur takist að færa út landhelgina. Þetta er máske skylt því, er stuðningsmenn hæstv. stjórnar lofuðu því í vetur að friða allan Faxaflóa. Þá stakk fyndinn náungi upp á því, að þeir ættu að lofa að friða alt Atlantshafið.

Það er dómadags vanþekking að halda það, að Englendingar samþykki þetta. Við gætum t. d. alveg eins samþykt það að taka England og leggja það undir okkur. En jeg vil mælast til þess við hæstv. forsrh. (JM), að hann sjái um, ef úr þessari sendiför verður, að sendimaðurinn komist þó til ákvörðunarlandsins.