07.05.1926
Efri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (2964)

86. mál, rýmkun landhelginnar

Jóhann Jósefsson:

Það er óþarfi að taka það fram, að jeg álít málið stórt, en það hafa aðrir minst á áður. Hitt er líka ljóst, að viðfangsefnið er örðugt, en jeg fæ ekki sjeð, að það sje óhugsandi að koma þessari hugmynd í framkvæmd.

Vísindalegar rannsóknir síðari ára hafa sýnt svo glögt, að allur almenningur hefir sannfærst, að fiskmergðin í sjónum er undir því komin, að vissir blettir sjeu alfriðaðir. Þessar rannsóknir eru að vísu ekki gamlar, en þó er nú svo komið, að margir útgerðarmenn óska þess eindregið, að viss hrygningarsvæði verði friðuð, því að þeir eru farnir að sjá, hve skaðlegar afleiðingar rányrkjan hefir fyrir þá sjálfa og horfur útgerðarinnar í framtíðinni.

Englendingar hafa ekki gefið miklar vonir um skjót úrslit þessa máls. En það bið jeg hv. þdm. að athuga, að varðveisla hrygningarsvæðanna og niðurlagning rányrkjunnar er ekki mál neinnar einstakrar þjóðar, heldur allra þjóða mál. Og sameiginlegt hafrannsóknarstarf margra þjóða bendir ótvírætt á það, að rányrkjan, að því er snertir veiðiskap úr sjónum, verði að hverfa úr sögunni, ef ekki á illa að fara fyr eða síðar.

Jeg staðhæfi það, að margir útgerðarmenn hjer á landi eru á þeirri skoðun, sem jeg hefi nú lýst. Og jeg tel ekki vonlaust, að útlendir útgerðarmenn hallist að því í framtíðinni, vegna sinna eigin hagsmuna, að það sje þeim fyrir bestu, að flóar og firðir sjeu friðaðir.

Jeg veit ekki betur en að Bretar hafi gert þá ráðstöfun hjá sjer að friða Morayflóa. Og það hafa þeir gert einmitt af þessum ástæðum. Þess vegna ætti þeim ekki að vera það óskiljanlegt, þótt við förum fram á það að alfriða einhvern þann fjörð, er líklegastur er.

Mál þetta er í mínum augum afar mikils virði, og jeg sje enga hættu því samfara að halda því vakandi. Minna má og á það, að hugmyndin er ekki heimskulegri en svo, að utanríkisstjórn Dana leyfði sjer að bera hana á borð fyrir Breta nú nýverið, að gefnu tilefni af Breta hálfu, og að þeir menn, sem vilja okkur best, stappa í okkur stálinu um það að fylgja henni sem fastast fram.

Það er í fullu samræmi við þáltill., að stjórnin beiti sjer fyrir þessu máli með þeirri festu og gætni, sem sæmir. Það vinst ekkert á með ofsa og ákefð, heldur verður að reyna að koma mönnum í skilning um, að nauðsynlegt sje, að friðun vissra svæða sjávarins komist á.

Það var talað mikið um það s. l. ár meðal þeirra þjóða, er hafrannsóknir stunda, að friða bæri nokkur svæði í Norðursjó, til hagsmuna fyrir þær þjóðir, er þar stunda fiskiveiðar. Og þegar bestu sjerfræðingar erlendis eru farnir að tala um þetta í fullri alvöru, þá fæ jeg ekki skilið, að það sje neinn vanþekkingarvottur, þótt Alþingi samþykki slíka þáltill. til stjórnarinnar.