08.03.1926
Efri deild: 22. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (2978)

54. mál, kaup á snjódreka og bifreiðum

Flm. (Jónas Jónsson):

Hæstv. atvrh. (MG) hefir tekið svo í málið, að mjer getur ekki blandast hugur um, að hann sje á móti því. Og álit sitt segist hann byggja á sjerfræðingi. Jeg skal játa, að það sje nauðsynlegt að byggja stundum á áliti sjerfræðinga, en vitanlega fer það eftir því, hvað áreiðanlegur hann hefir reynst í áætlunum sínum, sjerfræðingurinn, hvort álit hans hefir staðist rök reynslunnar. Sje það ekki, er ástæðulaust að fylgja honum í blindni. Og nú vil jeg nefna dæmi, þar sem þingið beinlínis gekk á móti áliti þessa sjerfræðings, sem hæstv. atvrh. (MG) vill nú byggja á alla sína visku, og samþykti að haga stóru verki á alt annan hátt en vegamálastjóri hafði lagt til að það skyldi gera. Þetta dæmi er fárra ára, og þó að hæstv. atvrh. væri þá ekki ráðherra, geri jeg ráð fyrir, að honum sje þó kunnugt um, að vegamálastjóri hafði lagt til að viðhafa aðra aðferð til þess að halda Þykkvabæjarvötnunum í skefjum en þingið samþykti. Vegamálastjóri ætlaði að þrengja að vatninu í Djúpós með þeim hætti að hlaða kampa beggja vegna og halda svo opnum ál í miðjunni. Á þessu hafði ekki einn einasti bóndi í Þykkvabæ nokkra trú. Þó að þeir væru ekki sjerfræðingar, vissu þeir þó betur og skildu en vegamálastjóri, að állinn myndi dýpkva, grafa undan görðunum og stíflumar hrynja. Þeir sáu, þessir leikmenn, að hjer var um svo stórkostlega vitleysu að ræða hjá vegamálastjóra, að hann mætti ekki komast upp með hana. Þeir sneru sjer til þingsins og fengu sínu framkvæmt. Heilbrigð skynsemi leikmanna sigraði, en sjerfræðingur stjórnarinnar varð að láta í minni pokann. Ósinn var teptur, eins og bændur höfðu talið einu leiðina, og nú hefir komið á daginn, að með þessu verki hefir tekist að gera það gagn, sem ætlast var til í upphafi.

Vitanlega er jeg ekki þar með að segja, að alt sje vitlaust, sem sjerfræðingar gera, þó að hjer sje um óhrekjandi dæmi að ræða, að fjöldinn vissi betur en sá eini, sem ráða átti fyrir fjöldann. En jeg nefndi þetta sem sönnun þess, að jafnvel lærðum sjerfræðingum getur yfirsjest, og að heilbrigð skynsemi leikmanna á þá heldur að ráða. Og það mætti eflaust nefna fleiri dæmi þess, að sumar áætlanir þessa sjerfræðings stjórnarinnar og álit hans hafa ekki haft við rök að styðjast, þegar reynslan fór að dæma verk hans. En því ætla jeg að sleppa að þessu sinni.

Hæstv. atvrh. (MG) fer villur vegar, ef hann heldur, að jeg hafi aðeins við „reclame“-rit að styðjast hvað upplýsingar mínar snertir á þessum bíl. Hann veit ekkert um, hvaðan jeg hefi heimildir mínar, eða hverjar þær eru. Allir sæmilega mentaðir menn vita, að í þessum bílum er búið að fara mörg þúsund km. yfir eyðimerkur og vegleysur. Það er þeim, sem skjátlast, en ekki mjer, og á meðan þeir geta ekki ósannað skýrslu mína, verða þeir að þola, að jeg segi, að þeir hafi á röngu að standa.

Hvað Holtavörðuheiði snertir, þá held jeg mjer við það, sem jeg sagði fyr, að hún er vegleysa fyrir þá bíla, sem við höfum hingað til vanist. Að minsta kosti fullyrði jeg, að enginn af þeim bílum, sem nú eru í landinu, geti komist yfir hana.

Það, sem mjer finst að vaki fyrir þeim báðum, hæstv. atvrh. (MG) og vegamálastjóra, er það, að þeir álíti, að allar samgöngur eigi að miðast við það eitt, að svo og svo mikið af smjöri og heyi geti flust hingað til Reykjavíkur austan yfir heiði. Þess vegna sjá þeir ekki nema Hellisheiði og miða allar samgöngubætur við þann veg. Þar á hann líka að notast, þessi 17 þús. kr. snjóplógur, sem þeir vilja nú láta kaupa.

Ef hæstv. atvrh. (MG) les sæmilega vel þetta mál, þá ætti honum að vera ljóst, að sjálfsagt sje að gera tilraun með þennan bíl hjer á landi, sem gefist hefir jafnvel á margskonar vegleysum erlendis og jeg hefi bent á. Jeg hefi nefnt þennan bíl snjóbíl, af því að hann er notaður í snjó, en það má vel vera, að kalla mætti hann eitthvað annað og miða það við vegleysurnar.

Það var rjettilega tekið fram hjá hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), að við höfum ekki ráð á öðru en að reyna öll þau samgöngutæki, sem nokkur von er um, að geti komið hjer að gagni. Þess vegna endurtek jeg þá ósk mína, að till. fái að ganga til samgmn. og athugast þar áður en síðari umr. verður.