19.04.1926
Efri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í D-deild Alþingistíðinda. (2984)

54. mál, kaup á snjódreka og bifreiðum

Frsm. (Einar Árnason):

Af nál. á þskj. 366 sjest, hvaða afstöðu nefndin hefir tekið til þessarar till., og jafnframt eru í nál. færð rök fyrir því atriði, sem nefndin vill bæta við tillöguna.

Við fyrri umr. varð dálítið karp á milli háttv. flm. (JJ) og hæstv. atvrh. (MG) um gagnsemi þeirrar bifreiðar, sem tillagan ræðir um, og aðallega er sú tegund bifreiða, sem fjelagið Citroen býr til. Nú verður því ekki neitað, að þessi gerð bifreiða hefir verið notuð til margra merkilegra hluta. Það hefir verið farið í henni yfir vegleysur og eyðimerkur, bæði í Asíu og Afríku, auk þess sem hún hefir mikið verið notuð í fjalllendi Suður-Evrópu. Jeg hefi nýlega talað við tvo menn, sem fyrir skömmu komu hingað heim aftur úr ferð um Frakkland. Þeir höfðu gert sjer far um að kynna sjer þessar bifreiðar, til þess að geta gert sjer hugmynd um, að hvaða gagni þær mættu koma hjer á landi, og þess vegna höfðu þeir talsvert ferðast í þessum bifreiðum. Álit þessara tveggja manna er á þá leið, að þessar bifreiðategundir mundu víða geta komið að notum hjer á landi, jafnvel þótt yfir vegleysur væri að fara. Þannig töldu þeir t. d., að auðvelt mundi verða að komast í þeim frá Akureyri til Húsavíkur, eins og vegurinn þar á milli er nú, en báðir eru mennirnir kunnugir á þessum slóðum.

Eins og flestum mun vera kunnugt, er Vaðlaheiði bæði há og brött, og vegurinn yfir hana er nær ófær vögnum og alófær venjulegum bifreiðum. Þessir menn töldu, að engin vandkvæði mundu verða á því að fara í Citroen-bifreiðum yfir Vaðlaheiði, um Ljósavatnsskarð og Bárðardal, ef aðeins brúin yfir Skjálfandafljót væri fær yfirferðar.

Þá kem jeg að þeirri spurningu, að hvaða gagni þessar bifreiðar mundu koma í snjóþyngslum. Um þetta atriði er enn þá miklu minni reynsla fengin en á snjólausu landi. En þessar bifreiðar hafa líka verið ætlaðar til ferðalaga í snjó, og því er eigi nema eðlilegt, að við hjer á landi veitum því athygli, ef þetta kynni að takast. Slíkra farartækja mundi verða mikil þörf víða hjer á landi á vetrum, þar sem snjóþungt er.

Af þeim upplýsingum, sem hingað til hafa fengist, hafa menn ályktað það, að þessi farartæki gætu ekki komið að tilætluðum notum nema í mjög grunnum eða þá hörðum snjó. En nú er þess að gæta, að víða er verið að gera tilraunir með bifreiðar af annari gerð en Citroen-bifreiðamar, og er þeim bifreiðum ætlað að ganga í snjó; og vegamálastjóri getur þess í skýrslu, sem nefndin fjekk í hendur, að í Noregi sje verið að gera tilraunir með beltaumbúnað, sem megi setja á miklu kraftmeiri bifreiðar en Citroën-bílana. Nefndin taldi því rjett, að máli þessu væri haldið vakandi með því að heimila stjórninni að verja fje úr ríkissjóði til að kaupa bifreiðar, sem ætla mætti að hjer gætu komið að notum, bæði á snjó og snjólausu. Vitanlega verður þetta alt að vera undirorpið áliti sjerfræðinga, ef til eru, en vegamálastjóri ríkisins mun þegar hafa fengið nokkra þekkingu á þessum málum, enda er hann því hlyntur, að keypt verði eitthvað af farartækjum þessum, ef álitið verði, að þau geti komið hjer að einhverjum notum.

Þá vill nefndin bæta við tillöguna ákvæðum um kaup á tækjum til að ryðja snjó af vegum, svonefndum snjódrekum eða snjóplógum. Af þeim eru tvær tegundir til, önnur þung og fyrirferðarmikil, hin minni og ljettari. Enda þótt jeg viti það ekki með vissu, hygg jeg þó, að þegar hafi verið keyptur hingað til landsins einhversháttar ljettur snjóplógur, en lítil reynsla mun vera fengin með hann enn þá. En hafi það gengið illa, liggur nærri að ætla, að annaðhvort hafi snjóplógur þessi verið of veigalítill, eða að bifreiðin, sem átti að knýja hann áfram, hefir ekki verið nógu aflmikil. Snjódrekunum ætla jeg ekki að lýsa neitt nánar, en í nál. eru dálitlar upplýsingar frá vegamálastjóra um snjódrekana, sem nú eru farnir að ryðja sjer til rúms í Noregi og Svíþjóð. Þar hafa þeir gefist vel, en til þeirra þarf miklu sterkari aflvjelar en hjer hafa þekst í venjulegum bifreiðum.

Í þessu sambandi má geta þess, að bifreiðar þessar, sem eru nokkuð dýrar, má nota til fleiri hluta en knýja áfram snjódrekana. Vegamálastjóri hefir bent á, að mjög heppilegt mundi vera að nota þær við vegagerð víða á Suðurlandi. Þær væru hentugar mjög til þess að flytja möl til ofaníburðar í vegi, þar sem flutningur er langur á mölinni. Bæði má flytja á bifreiðunum sjálfum og láta þær draga malarvagna. Það má gera ráð fyrir, að bifreiðar þessar geti komið að ýmsum notum hjer, þar sem aflmikilla dráttartækja er þörf. Þessu til frekari árjettingar vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa hjer nokkur orð upp úr skýrslu vegamálastjórans:

„Bifreiðin, sem hjer er farið fram á að fá fje til að kaupa, mundi aðra tíma árs verða notuð aðallega til malarflutninga í vegi hjer sunnanlands, sjerstaklega þar sem langt er að flytja mölina. Mun hún geta haft annan vagn í eftirdragi, en sjálf flytja nær þrefalt hlass á móts við þær malarbifreiðar, sem nú eru notaðar. Er því sýnt, að hún mundi koma að fullum notum og fást með henni ódýrari flutningur, sjerstaklega þar sem langt þarf að sækja mölina“.

Að svo stöddu sje jeg ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál. Tillagan er aðeins heimild, sem stjórnin notar, ef hún telur þess vert og að hjer sje um framfarir eða samgöngubætur að ræða. Nefndin vildi ekki draga úr því, að alt væri reynt, sem hægt er, til að greiða fyrir bættum samgöngum hjer á landi að vetrinum, og leggur því til, að tillaga þessi verði samþ. með þeim breytingum, sem nefndin hefir gert á henni.