19.04.1926
Efri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í D-deild Alþingistíðinda. (2986)

54. mál, kaup á snjódreka og bifreiðum

Jónas Jónsson:

Jeg get lýst ánægju minni yfir meðferð háttv. nefndar á þessari þáltill. minni, og um viðbótina, um snjódrekana, get jeg sagt það, að það væri mjög æskilegt að fá slíkt áhald hingað, til að halda opnum veginum til Hafnarfjarðar hjeðan úr Reykjavík og austur yfir fjall að vetrinum. Jeg vil aðeins láta stjórnina vita um, að ræðismaður Frakka hjer á landi hefir sýnt mjer brjef og leyft mjer að segja hjer frá því, að verksmiðja sú í Frakklandi, sem býr til snjóbíla og beltabifreiðar, væri fús til að senda hingað eina bifreið til reynslu og mann með henni, til að kenna mönnum að fara með. Mjer þykir líklegt, að ræðismaðurinn hafi skrifað henni og sagt frá því, að hjer væri þörf á að fá slíkar bifreiðar, og þess vegna mundi verksmiðjunni hagur í því að senda hingað vjelfróðan mann til að kenna mönnum hjer rjetta meðferð á þeim bifreiðum, sem fyrstar yrðu keyptar hingað. Jeg dreg ekki í efa, að það er rjett, sem hæstv. 1. þm. Eyf. (EÁ) sagði, að hjer mundi víða hægt að nota beltabifreiðar með góðum árangri, eins og nú hagar til t. d. á Norðurlandi.

Það mundi verða mikið hagræði í því að geta ferðast á þennan hátt frá Húsavík til Akureyrar, eða frá Akureyri til Sauðárkróks, þó að menn yrðu lengur á leiðinni en í venjulegum bílum á góðum vegum.