11.05.1926
Neðri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (3003)

113. mál, slysatryggingariðgjald

Magnús Torfason:

Jeg verð nú að segja, að jeg sje ekki, hversu ákaflega mikill munur er á því, hvort hásetum er borgað vist kaup eða hvort þeim er borgað með hlut af afla. Ef borga á hásetum með kaupi, þá á útgerðarmaðurinn að greiða iðgjaldið fyrir þá, en ef borga á háseta með afla, þá er sagt, að hann sje þátttakandi í útgerð. Það er hægt að segja það að vissu leyti, ef hann á nokkum hlut í skipinu. En nú er það einmitt ekki. Þessi útgerð er þannig, að það eru útgerðarmenn, sem eiga skipin og lána þau gegn vissum hlut. Hásetarnir fá ekki hlut af öllum aflanum. Þvert á móti. Það er hugsað sem svo, að það sje sæmilegt kaup fyrir þá að lifa á; öðruvísi er það ekki hugsað. (JAJ: Þetta eru mestu firrur!). Nei, þetta eru ekki firrur. En hvort þetta er greitt með kaupi eða ekki, fer yfirleitt algerlega eftir því, hvort útgerðarmenn og eigendur skipanna telja heppilegra. Við vitum upp á víst, að togarar vildu aldrei ganga inn á þetta, að hásetar fengju hlut af öllum afla útgerðarinnar. Eins vitum við aftur, að formenn hafa ekki viljað ganga inn á annað en að þeim væri borgað með hlut. Hafi svo útgerðarmenn sjeð sjer annað hagkvæmara, hafa þeir hagað sjer þar eftir, hvað sem hinum leið. Það er sjerstaklega kunnugt, að skipseigendur hafa tekið svokallaða útgerðarmenn upp á kaup, í staðinn fyrir að greiða þeim eftir hlut, vitanlega af því að þeir álíta sjer það hagkvæmara. Það verður enginn „princip“-munur hjer á, hvort eigi að greiða með hlut eða föstu kaupi, fyr en hásetar fá hlut af öllum brúttó-aflanum.

Svo er eitt, sem jeg hefi tekið eftir í þessu sambandi; það er, að gera mætti mikinn mun á því, hvort útgerðarmaður fer með bátinn eða ekki. Það er mikill munur, hvort hann tekur þátt í allri stjórn og allri hættu eða brúkar menn sína eins og leigudýr. (JAJ: Þetta eru ósæmileg orð). Úr því að hv. þm. N.-Ísf. ætlar nú sem oftar að fara að setja ofan í við þingmenn hjer í hv. deild og gera sig að háyfirforseta deildarinnar, þá skal jeg leyfa mjer að benda honum á eitt atriði í þessu sambandi, sem jeg ætlaði þó að þegja um. Það eru ekki mörg ár síðan einn formaður hafði setið í landi, þegar aðrir reru, því honum hafði ekki litist á veður. Útgerðarmaðurinn situr í Reykjavík, hringir formanninn upp og spyr, hvers vegna hann hafi ekki róið. Honum leist illa á veðrið. Útgerðarmaðurinn segir þá: Jeg ætla að vonast til þess, að jeg frjetti ekki oftar, að þú liggir í landi, þegar aðrir róa. Það var ákafur veðrahamur um þetta leyti. Rjett einum eða tveimur dögum síðar fer þessi formaður á sjó í ófæru veðri — og kom ekki aftur. Geta menn nú sjeð, hvort nokkuð var ofsagt hjá mjer áðan. (JAJ: Jeg ætti að fá þingmanninn til að standa við þessa slúðursögu.). Hann hefir einskis að krefja mig reikningsskapar um; þessi saga er sönn. (JAJ: Hún er ósönn!). Nei, hún er sönn. (JAJ: Vill þingmaðurinn dirfast að standa við hana?). Jeg mun gera það.

En hvað málið snertir, sem hjer um ræðir, þá er ekki nokkur meining að vera nú að breyta lögum þessum með einfaldri þál. Þó skal jeg játa, að fyrir smábát, er formenn sjálfir taka þátt í allri vinnu, gæti verið ástæða til að athuga lögin og breyta þeim að þessu leyti. En það er ekki rjett, að það felist í lögunum, að láta megi þá menn, sem fá hlut af afla, borga iðgjald.