10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í D-deild Alþingistíðinda. (3016)

116. mál, strandferðir Esju

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg hefði kunnað betur við, að umr. væri frestað og till. vísað til samgmn. Er óþægilegt að taka þetta skip út úr sambandi við annað, er nefndin hefir með höndum.

Jeg verð að segja, að mjer finst til mikils ætlast, að Esja fari 2 aukaferðir milli Austfjarða og Reykjavíkur. Jeg er samþykkur því, sem hv. flm. stakk upp á, að Esja komi til Austfjarða og fari suður um land til Reykjavíkur, er hún kemur úr utanlandsförinni, einkanlega ef ferð yrði norður um land um líkt leyti.