14.05.1926
Neðri deild: 78. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (3042)

123. mál, launauppbót símamanna

Flm. (Jakob Möller):

Jeg þarf ekki langa framsögu fyrir málinu. Það liggur alveg ljóst fyrir. Hæstv. stjórn hefir tekið upp í fjárlög fyrir 1927 fjárveitingu, 8 þús. kr., til þess að bæta kjör símamanna á því ári, en það er ekki nein heimild fyrir því að greiða þeim launauppbót fyrir árið 1926.

Nú er svo áliðið þingtímans, að það er ekki unt að fá formlega fjárveitingu til þessa fyrir 1926. Hefir því þessi leið verið farin, og er það gert til þess, að hv. deild láti í ljós afstöðu sína til málsins. Og ef meiri hl. þdm. felst á till., þá er meiningin sú, að þessi hv. deild vilji styðja hæstv. stjórn í því, að þessi uppbót sje greidd. Því það má ganga að því vísu, að hún telji þetta sanngirnismál, þar sem hún hefir viðurkent það með því að taka uppbótina inn í fjárlögin 1927.

Það er öllum kunnugt, að þetta er ekki í fyrsta skifti, að þetta mál kemur hjer fram. Á þingi 1923 bar jeg fram till. um að bæta kjör þessara manna og annara þeirra, er verst kjör hafa hjá landssímanum. Var þá samþ. að veita símastúlkum uppbót, en felt með litlum mun að bæta þessum mönnum upp, eins og nú er gert í fjárlögunum 1927. Sem stendur eru laun þessara manna um 250 kr. á mánuði með dýrtíðaruppbót, og sjá allir, að þeim hlýtur að vera ókleift að komast af með það. Þeir hafa engar aukatekjur, því að allur dagurinn fer í starfið fyrir símann. Jeg legg áherslu á það, að þörf þessara manna á launauppbót kemur skýrt fram í margendurteknum umsóknum þeirra til Alþingis, og loks að hún er viðurkend með því, að stjórnin hefir tekið þetta upp í fjárlögin 1927.

Annars bíð jeg þess, hvað hæstv. stjórn segir um málið, en endurtek það, að hjer er eigi um neina skipun að ræða, heldur aðeins yfirlýsingu.