14.05.1926
Neðri deild: 78. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (3045)

123. mál, launauppbót símamanna

Ólafur Thórs:

Jeg hafði ætlað að greiða atkv. á móti till. og styðja skilning hæstv. atvrh. (MG) um það, að órjett sje að binda hendur ríkisstjórnarinnar til fjárframlaga á þennan hátt. En eftir að hæstv. atvrh. (MG) hefir lýst yfir því, að hann skoði atkvæðagreiðslu eigi bindandi fyrir stjórnina, heldur aðeins sem yfirlýstan vilja þessarar hv. deildar, þá mun jeg greiða till. atkv. og nota tækifærið til að láta í ljós þá skoðun, að menn þessir sjeu illa launaðir, en vinni mikið og vandasamt verk. Það fyrirtæki, sem jeg með fleirum veiti forstöðu, er stærsti viðskiftavinur landssímans, og það hefir altaf verið mjer óblandin ánægja að skifta við þessa menn, bæði á skyldutíma þeirra og eins utan hans. Og jeg veit, að starfslöngun þeirra er óvenjuleg og að þeir eru altaf boðnir og búnir til að þóknast viðskiftamönnum símans. Mín ósk er því eindregið sú, að kjör þeirra verði bætt.