14.05.1926
Neðri deild: 78. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í D-deild Alþingistíðinda. (3051)

128. mál, réttur erlendra manna til þess að leita sér atvinnu á Íslandi

Flm. (Jón Baldvinsson):

Till. felur ekki í sjer annað en það, sem allir sjá og skilja af orðalagi hennar, og er vart nokkru þar við að bæta. Á þingi 1924 var samþ. till. um að skora á ríkisstjórnina, að hún gæfi út reglugerð um þetta efni. En hæstv. stjórn áleit slík lög ekki nægilega heimild fyrir sig til þess að takmarka atvinnurjett erlendra manna hjer á landi. Fyrir því er till. þessi fram komin.

Á seinni árum hefir talsvert borið á því, að erlendir verkamenn hafi verið fluttir inn og þannig bægt innlendum verkamönnum frá vinnu. Það væri sök sjer og í sjálfu sjer ekkert við það að athuga, ef þeir ynnu fyrir sama kaup. En því er ekki að heilsa, heldur eru þeir ráðnir upp á lægra kaup og með því notaðir til að fella kaup verkamanna innanlands. Auk þess er auðvitað á það að líta, að fyrir hverja 100 útlendinga t. d. missa jafnmargir íslenskir menn atvinnu.

Nú síðast var það á Siglufirði, að útlendur maður, sem reisir verksmiðju, flytur inn verkamenn, sem hann kallar sjerfræðinga. En það er vitanlegt, að þeir eru um ekkert fremri en alment er um verkamenn.

En honum þóknaðist nú einu sinni að flytja þá inn fyrir lægra kaup, til þess að bægja landsmönnum frá. Enda eru starfrækjendur þýskir og sænskir. Má segja, að þeir sjeu allframir að setjast hjer að í hálfgerðu leyfisleysi og flytja inn verkamenn til óþurftar.

Till. fer fram á, að stjórnin útbúi lög um rjett erlendra manna til að leita sjer atvinnu hjer, þannig, að enginn erlendur maður geti gengið í atvinnu hjer á landi nema leyfi ríkisstjórnar komi til, en nú er litið svo á, að stjórnin geti ekki bannað erlendum mönnum að koma hingað í atvinnuleit eða taka að sjer vinnu hjer.

Sjerfræðingum yrði vitanlega að veita leyfi til að vinna hjer á landi að störfum, er innlendir ekki kunna.

Það hefir sýnt sig, að notkun erlends vinnukrafts er ekki til þjóðþrifa. Það var reynt nú um síðustu aldamót, en gafst ekki svo vel, að ástæða sje til að veita leyfi til slíks. Alt öðru máli er að gegna um sjerfræðinga, sem ekki er völ á í landinu sjálfu. Enda yrði löggjöfin aðeins heimild fyrir stjórnina að taka í taumana, ef ekki er þörf fyrir aðflutt vinnuafl. En skyldugt ætti að vera að sækja um leyfi til að flytja inn verkamenn eða starfsmenn.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara frekari orðum um till. Jeg þykist vita, að hún muni ekki mæta mótspyrnu og stjórnin sje fús til að taka hana til greina.