11.05.1926
Neðri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í D-deild Alþingistíðinda. (3067)

118. mál, rannsókn veiðivatna

Flm. (Halldór Stefánsson):

Jeg hefi ekki beint ástæðu til að andmæla hæstv. atvrh. (MG). Hann tók allvel í þetta mál. Hann upplýsti það, að hr. Pálmi Hannesson hefir í þann veginn lokið prófi þessa dagana, og mjer skildist sem hæstv. atvrh. (MG) teldi hann hafa næga þekkingu til að taka þetta starf að sjer. Jeg tel það vafasamt enn þá, en jeg teldi, að það mundi verða góður skóli fyrir hr. P. H. að vera með dr. Reinsch eitt sumar í byrjun, sjerstaklega að því leyti að kynnast verkfærum þeim, er hann notar, sem eru líklega ekki mjög algeng, og sagt er, að hann hafi sjálfur fundið upp sum þeirra. Jeg held því, að dr. R. sje best til verksins fallinn, en þó teldi jeg ekkert að því, að þeir störfuðu báðir saman. Þetta skiftir að vísu ekki miklu máli, en jeg álít þó, að úr því sem komið er verði að ráða dr. Reinsch til þessa þetta árið.