10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í D-deild Alþingistíðinda. (3102)

84. mál, þjóðaratkvæði um þinghald á Þingvöllum

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Mjer er það ljóst, að nú í þinglokin er ekki sú kyrð eða rósemi yfir hugum hv. þm., sem þetta alvarlega mál um þingflutning ætti að njóta. Og jeg finn líka vel til þess, að ekki er á valdi mínu að reifa þetta svo vel og áheyrilega, sem jafnalvarlegu og þýðingarmiklu máli er samboðið. Þessi hugmynd um þingflutning er hvorttveggja í senn, djúptækt alvörumál og viðkvæmt tilfinningamál. Það er og á að vera hafið yfir dægurþras og smámunalegan sveitadrátt. Það ætti fremur flestu öðru að vekja til alvarlegrar umhugsunar ungmennin, sem nú eru að hefja framtíðina á herðar sjer, og það hreyfir þá strengi í hugum aldraðra og ráðsettra manna, sem goluþytur hversdagsmálanna snertir aldrei. Þetta mál verður ekki vegið — það verður ekki felt eða stutt, nema í samræmi við þá skoðun eða trú, sem fyrir einstaklingum vakir um örlög niðjanna á ókomnum tímum. Ljettúðug afgreiðsla hæfir síst slíku máli sem þessu. Þetta mál hlýtur hjá hverjum hugsandi manni að leita að uppsprettu þess, sem inst er og best í eðli hans, umhyggjunni fyrir og ástinni til niðjanna og ættlandsins; það leitar inn í helgidóm hugans, þar sem friðlýstur reitur er fyrir allar einkaákvarðanir.

Flestir fulltíða menn eiga sjer líka í öðrum skilningi afmarkaðan helgireit, oftlega bundinn við æskustöðvar eða þann stað, þar sem örlagarík og ánægjuleg atvik hafa gerst í æfi einstaklingsins. Að eðlilegum hætti er sá friðlýsti reitur líka oft heimilið, þótt langt kunni að vera frá æskustöðvunum. En þar sem átthagaræktin hefir eigi kulnað, þar getur oft helgasti reiturinn — æskustöðvarnar eða ættaróðalið — verið langt frá dvalarstaðnum, og þá oftlega enn helgari í huga landflóttamannsins en nokkurs annars.

Alkunna er átthagarækt og heimþrá Vestur-Íslendinga. Margir þeirra hafa varið ærnu fje og fyrirhöfn á gamals aldri til þess að komast „hingað heim“ og dvelja um stuttan tíma á æskustöðvunum, en hverfa þá aftur til vandamanna vestra. Nær ætíð heimsækja þeir ættarstöðvarnar, ef þeir eru úr sveit, með algleymingsfögnuði, og yfirgefa þær aftur með hrygð í huga. Oftast leitast þeir við að skilja eftir einhvern sýnilegan vott heimsóknarinnar, einhverja staðarprýði eða staðarbót, og með aðdáun og fjálgleik tala þeir um þessa staði. Þessir staðir eru þeim einskonar heilög tákn, og ósjaldan má heyra þau orð af vörum vestangestanna: Hjer vildi jeg bera beinin. Slík er átthagarækt landflóttamannanna vestrænu og helgi þeirra á æskustöðvunum.

Eins og einstaklingar eiga þannig helga reiti, hver um sig, eins eiga þeir, sem uppruna rekja til sama hjeraðs, oft sameiginlegan helgireit. Tíðum er það kirkjustaður sá, er sótt var til á fermingaraldri, þar sem æskan brosti blíðast við ungmennunum og tjaldaði rósrauðu, þar sem ungmennin með bljúgum huga tóku á móti vígslunni í víngarði kirkjunnar og unnu henni og þjóðfjelaginu þegnskaparheit fyrir alla æfi. Slíkir helgireitir ýta undir einingar- og bróðurhug og skapa samhygð; átthagaræktin kemst þar í hærra veldi, ef svo mætti segja, og litast um leið lotningu fyrir kirkjunni og hennar erindi.

Þá eru enn þeir helgireitir, sem draga hugi manna saman á stórum svæðum, og byggist oftast eftirlætið á þeim á sögulegum eða glæsilegum minningum, eða þá sjerstakri náttúrufegurð, ef ekki hvorttveggja. Eins og dæmi um slíka sögulega helgireiti má nefna biskupastólana fornu, Odda, Haukadal, Reykholt o. fl., en sem dæmi hinna t. d. Hallormsstað og Ásbyrgi.

Alt þetta framantalda er hliðstætt við hugmyndalíf og háttu annara þjóða, og þó með þeim mun, að víðast annarsstaðar er meiri alvörugefni samfara ræktarsemi við slíka staði, og meira fyrir þá gert. Óðalsrjetturinn, sem skapar átthagarækt, er t. d. í meiri metum hafður í grannlöndunum en hjer. Kirkjur, sem staðið hafa í aldaraðir í sveitum og unnið sjer hefð, eru þar ekki eins gálauslega lagðar niður og hjer og fluttar í lítilmótleg fiskiver. Og frægir sögustaðir, eða staðir með afbrigðilegri náttúrufegurð, njóta þar meiri verndar og umönnunar en hjer.

Þó mun eigi rjett að eigna þetta tómlæti eða ræktarleysi við helgireitina hjá okkar þjóð. Hitt mun sanni nær, að efnaskortur valdi miklu um það, að hún getur ekki haldið til jafns við nágrannana, enda eru hjer meðal sagna- og minningafjöldans fleiri reitirnir, sem hlynna þarf að.

En einn er sá helgireitur hjer á landi, sem yfirskyggir alla aðra og ekkert á hliðstætt með grannþjóðunum, staður, sem öll þjóðin lítur til með aðdáun og hrifningu, eins þeir, sem aldrei hafa sjeð hann, staður, sem talað er um með meiri lotningu en nokkurn annan, staður, sem skín í ljóma dýrðlegrar endurminningar og öll saga þjóðarinnar snýst um. Þessi staður er Þingvellir við Öxará, sá staður, sem Henderson sagði um, að hefði gagntekið sig svo með fegurð og tignarsvip, er hann við sólarupprás bað bænir sínar utan tjalds á völlunum við Öxará, að fölnað hefði í huga sjer alt skraut og prýði veglegustu mustera Austurlanda.

Engan slíkan stað á nokkur grannþjóðanna, engan eins þrautvígðan og vafinn frægilegum minningum, enda á engin þeirra jafngamalt löggjafarþing og Alþingi. Engin furða þess vegna, að þjóðin lítur á þennan stað eins og helgidóm. Þar hefir þing verið helgað 8–900 sinnum. Þar hafa 24–30 kynslóðir í óslitinni röð hver fram af annari kynt þann þjóðlega arineld, sem enn þá lýsir veginn fram undan og yljar huganum, og þar hafa þessar horfnu kynslóðir ýmist greitt úr vandamálunum eða reist rönd við útlendri ásælni eða aðsteðjandi hættum.

Einn óskeikulasti vottur um helgi og ágæti staðarins er það, að hann hefir verið valinn að samkomustað, þegar mest hefir þótt við liggja um hin alvarlegustu mál þjóðarinnar, og einnig til að fagna útlendum þjóðhöfðingjum, þegar að garði bar. Hví mundi þjóðfundurinn 1851 og síðari tíma Þingvallafundir hafa verið haldnir þar, nema einmitt vegna þeirrar trúar fólksins, að helgi staðarins helgaði athafnir fundanna, og þannig hefir átakanlega verið viðurkend sú trú, sem kaldhæðin efnishyggjan kannast ekki við, að hollvættir staðarins haldi vörð um hann og stýri til hamingju gerðum þeirra, sem í einlægni leita þar úrlausnar vandamálanna. Jeg veit, að slík trú er af mörgum talin forneskja og fjarstæða, en hún er enn reiðubúin til að flytja fjöll, ef á liggur og efinn er á flótta rekinn.

Meginhluti landsmanna hyllir þessa trú, svo fremi jeg veit, og óskar þess, að Alþingi flytji á Þingvelli aftur. Þrekleysi þjóðarinnar og örbyrgð sú, sem erlend kúgun hafði skapað, olli því, að Alþingi var ekki endurreist við Öxará 1845. Baldvin Einarsson og Fjölnismenn hvöttu eindregið til þess, konungurinn, Kristján 8., lagði til 1840, að Alþingi yrði valinn staður við Öxará, og sjálfur foringi endurreisnarbaráttunnar, Jón Sigurðsson, var líka snortinn af þessari hugmynd. En hann vildi aka seglum eftir vindi, þegar tómlæti landsmanna olli tvísýnu um endurreisn þingsins, og fallast á þá aðferðina, sem auðveldari var, að endurreisa þingið í Reykjavík.

Óneitanlega höfðu þeir líka mikið til síns máls, eins og þá var ástatt um vegi, samgöngur og húsakost, sem tóku Rvík fram yfir Þingvelli. Auk heldur var þá halt undir hæli, að þingið kæmist undir þak í Rvík, og hírðist það síðan í latínuskólanum nær 40 ár.

Með ákvörðuninni um þinghald í Rvík þögnuðu um sinn raddirnar um Öxarárþing, og þjóðinni var stungið svefnþorn, en þetta var aðeins í bili. Síðari árin hefir hugmyndin um Öxarárþing eftirminnilega sagt til sín og svefnþornið er týnt. Símar, vegir og bætt samgöngutæki hafa að miklu leyti kollvarpað aðalmótbárunni gömlu gegn þinghaldi við Öxará, þ. e. a. s. erfiðleikamótbárunni. Hún var þung á metunum 1845 og fram yfir aldamót, en með öruggu bifreiðasambandi og símasambandi milli Rvíkur og Þingvalla hverfur hún að mestu, og þá ekki síður ef jámbrautarsamband bætist við. Flutningur skjala og bóka, sem hafa þyrfti við hönd, er nú lítilvægur saman borið við það, sem var, og milliferðir sömuleiðis. En að sjálfsögðu ætti bókasafn þingsins, eins og nú, að geymast á þingstaðnum milli þinga, þótt samkomustaðurinn væri eystra. Eðlilega þarf margvíslegan og mikinn undirbúning að gera á þingstaðnum forna, til þess að þing geti farið þar vel úr hendi, og stærsti þátturinn í því verki er bygging þinghúss, sem auk þingsala, bókhlöðu, vinnuherbergja og skrifstofurúms fyrir þingið og undirdeild úr stjórnarráðinu, ætti helst að rúma heimavistarhíbýli fyrir þingmenn og starfslið þingsins, annaðhvort í aðalbyggingu eða viðbótarbyggingu.

Um kostnað við þau mannvirki þýðir ekki að gera hjer áætlun. Hann mundi fara eftir því, hve mikið yrði vandað til þeirra. Fyrir ½ miljón króna mætti að sjálfsögðu reisa mjög sæmilegt hús, og hvað frekar, ef hjeruð landsins tækju þátt í byggingu. Auðvitað mundi af hálfu þess opinbera þurfa að koma þar upp fleiri mannvirkjum, svo sem lítilli prentsmiðju, til afnota um þingtímann, byggja kirkju, brúa Öxará og girða um svæðið, en sumt af þessu er fyrirhugað án þess að sett hafi verið í samband við þingflutning.

Að sjálfsögðu yrði þá líka að færa þingið aftur til sumarsins, ef samkomustaðurinn yrði Þingvellir, enda munu flestir reyndir og glöggskygnir menn við það kannast, að vel hafi verið valinn þingtíminn til forna, sem var bjartasti og sólríkasti hluti ársins. Spurningarnar, sem um verður deilt og um hefir verið deilt, eru þær, hvort fjarlægð stjórnarsetursins í Rvík mundi torvelda of mikið störf þingsins, og þá hitt, hvort nokkur fjárhagslegur ávinningur yrði af flutningnum. Í sjálfu sjer eru þessi atriði þó ekki það þýðingarmesta, en mikilsverð samt. Að fjarlægð stjórnarráðsins frá þinginu mundi aftra störfum þess, getur enginn borið sjer í munn, sem athugar það, að um nær 60 ár, frá 1845–1904, var stjórnarráð Íslands í 300 mílna fjarlægð frá Alþingi, nefnilega suður í Kaupmannahöfn.

En augsýnilega þyrfti stjórnarráðið að hafa skrifstofu á þingstaðnum, meðan þing starfaði. Ráðunautar stjórnarinnar, svo sem landssímastjóri, vegamálastjóri o. fl., þyrftu auðvitað að gefa leiðbeiningar, líkt og nú, en oftast gætu þær orðið símleiðis, enda enginn vandi fyrir þá að mæta á þingstaðnum endrum og sinnum.

Um þann fjárhagslega ávinning af þingflutningi verður ekkert sagt að óreyndu, en hann virðist einna líklegastur sá, að þingtíminn yrði styttri og frátafir og truflanir minni, auk þess sem þinghald að sumri mundi spara eldsneyti og ljósmeti. Einnig virðist mega gera ráð fyrir lægra þingfararkaupi. En það, sem mestu skiftir, hygg jeg þó það, að við Öxará yrðu þingstörfin betur af hendi leyst og þingið nyti sín þar betur í kyrðinni. Þar væri það að miklu leyti laust við hvimleiða áleitni einstakra manna, fjelaga og stofnana, sem vefjast fyrir því hjer og ota fram einkahagsmunum og skara eld að sinni köku. Þingmenn yrðu þar frjálsari og óháðari, gætu betur neytt rólegrar athugunar við rannsókn málanna.

Fegurð og helgi staðarins mundi einnig hafa örvandi áhrif og göfgandi á starf þeirra og úrslit viðfangsefnanna.

Af eðlilegum ástæðum mundi ýmsum höfuðstaðarbúum verða eftirsjá að flutningi þingsins. Þó vil jeg vænta þess, jafnt um Reykvíkinga sem aðra, er hugsa rjett og vilja vel, að þeir meti meira þjóðarheill og öryggi en fjármunalegan hagnað bæjarins af því að hafa þingmenn að gestum um þingtímann og þingið að atvinnustofnun.

Aðalatriðin þrjú í þessu máli eru þau, að þjóðin vill flutninginn, að hann er vel framkvæmanlegur án verulegs aukakostnaðar og að allar skynsamlegar líkur benda til þess, að árangur þingstarfanna yrði betri og heillavænlegri á þingstaðnum forna en nokkursstaðar annars.

Sjálfrátt eða ósjálfrátt finna allir til þess, að viðburðarík stund er að nálgast, og hún vekur í senn bæði vonir og áhyggjur. Vonirnar lúta að fegri framtíð, áhyggjumar aftur að því, hvernig búast eigi við örlagastundinni eða því, hvernig haldið verði sómasamlega 1000 ára afmæli Alþingis og hins íslenska ríkis 1930, og hvernig veitt verði móttaka þeim útlendu og innlendu gestum, sem afmælisins vilja minnast. Um það eitt eru þó allir sammála, að við Öxará eigi sá mannfagnaður að verða og hvergi annarsstaðar.

Viðbúnaðurinn er allur á reiki enn þá, og margvíslegar tillögur eru ræddar. Álit Þingvallanefndarinnar gefur ýmsar bendingar, er miðast þó að svo komnu einkanlega við hátíðahaldið sjálft og hina svonefndu þjóðgarðshugmynd. — Nokkru rúmbetri og ákveðnari hugmynd kemur fram í ágætri ritgerð í Eimreiðinni 1923, eftir hæstarjettarritara Björn Þórðarson, um þjóðhátíð á Þingvöllum. Hann hefir samtímis í huga friðun þingstaðarins forna, þjóðgarðshugmyndina, undirbúning mannfagnaðarins 1930 og árlegar þjóðhátíðir á Þingvöllum þaðan af. Hjá honum, eins og líka raunar hjá Þingvallanefndinni og mörgum öðrum, sem um þetta mál ræða, hillir undir hugmyndina um flutning Alþingis á Þingvöll í bláma framtíðarinnar, þótt ekki sje það berum orðum fram tekið. Sumir vilja hugsa sjer flutninginn einhvern tíma langt fram í ókomna tímanum, aðrir þegar betri samgöngutæki eru fengin en nú eru. En þriðji, og að því er jeg hygg fjölmennasti, hópurinn hugsar sjer flutninginn samhliða 1000 ára hátíðinni.

Þeir, sem hugsa sjer flutninginn 1930, hygg jeg að gerst hafi skoðað þetta mál og alvarlegast um það hugsað. Allur viðbúnaður mannfagnaðarins á Þingvöllum 1930 og árlegrar þjóðhátíðar þar verður einfaldari og skýrari, ef þingflutningurinn fylgdi honum. Alt yrði þá unnið með hliðsjón af þörfum þingsins, miðað við þær og fastan tilgang, en ekki tjaldað til einnar nætur eða fárra, eins og hætt er við að verði með undirbúningi 1000 ára hátíðar og þjóðhátíðar án þingflutnings.

Árleg þjóðhátíð á Þingvöllum í einhverri mynd mundi fyllilega trygð, ef Alþingi kæmi þar saman, hvort hún svo yrði við þingsetningu eða þinglausnir. Og það er ekki ósennilegt, að þangað sækti fólk, líkt og til forna, úr fjarlægum hjeruðum, til fróðleiks sjer og skemtunar, þótt til skiftis væri, og dveldi þar nokkurn hluta þingtímans, ætti sjer þar búðir, eins og Björn Þórðarson gerir ráð fyrir, og fengi þannig betra færi en nú gefst til að kynnast daglegum störfum þingsins, þýðing þess og verkefnum. Kæmi Alþingi saman svo sem í öndverðu var um sólstöður, má ætla, að því gæti lokið fyrri hluta ágústmánaðar, eða að hálfnuðum heyönnum. Mundi með þeim hætti mörgum gefast kostur á að sækja þjóðhátíð og þing heim, sem ella og annarsstaðar ætti þess minni kost og hefði þess minni not. Sumardýrðin, sólskinið og sveitavistin á þingstaðnum mundi veita heilbrigði, þrótt og ánægju um bygðir landsins og bæi með hátíðargestunum, og þinginu sjálfu yrði þar veitt þau ákjósanlegustu skilyrði frá hendi náttúrunnar til að neyta sinna bestu krafta.

Vetrarþingin hafa aldrei verið annað en ömurlegt millispor í sögu þingsins, því sjálfu og þjóðinni meinlegt. Myrkur skammdegisins hefir aldrei verið talið tími lífgjafar, fjörs eða heilbrigði, og verður aldrei, hvorki í andlegum eða líkamlegum skilningi. Því óheppilegra er það, að Alþingi skuli valinn samkomutími svo nærri vetrarsólhvörfum sem nú er. Því er þó ætlað að vinna ljóssins verk fremur en myrkranna, og enn sem fyr gildir það, sem Jónas sagði:

Myrkrið er manna fjandi,

meiðir það líf og sál.

Þótt áhuginn á þingflutningi sje enn á reiki, þá er málinu hvarvetna veitt mikil eftirtekt. Mjög ákveðnar raddir í þá átt að flytja þingið, og þá helst sem fyrst, hafa birst í blöðum og tímaritum, svo sem áður var nefnt.

Tilþrifamikil ritgerð um þetta efni birtist í Eimreiðinni 1923, eftir núverandi 4. þm. Reykv. (MJ), með fyrirsögn: Þingvallahreyfingin, og standa þar meðal annars þessi orð — (með leyfi forseta): „Það er eins og hver vakningartími beini sjónum manna að Þingvöllum og láti menn sjá og finna, að þar ættu hinar bestu og þjóðlegustu hugsjónir að rætast“, og enn segir sami höf.: „Hjer er þá ein tillaga um alþingishald á Þingvöllum. Og sú till. nær fram að ganga fyr eða síðar. Það er nokkurskonar prófsteinn á þjóðina, hvenær hún er orðin fullvaxin og veit, hver hún er, að þá flytur hún þingið á Þingvöll við Öxará. Annarsstaðar getur það ekki átt heima“. — Þessi tilvitnuðu orð sýna andlegan skyldleika höf. við Fjölnismenn, og þeir voru ekki myrkir í máli. Spurningin eftir orðum hv. þm. (MJ) ætti þá að vera sú, hvort þjóðin væri nú ekki orðin svo þroskuð og vitandi köllunar sinnar, að hún á næstu árum gæti látið hugsjónina rætast og flutt þingið. En við því er einmitt leitað svars með till.

Ákveðnust, snjöllust og best þeirra ritgerða, sem jeg man um þetta efni, stendur í Eimreiðinni 1924, með fyrirsögninni: Að Lögbergi, og er hún eftir núverandi ritstj. tímaritsins, Svein Sigurðsson. Hann sjer í allri Þingvallahreyfingunni og undirbúningi hátíðahaldsins viðbúnað við flutningi þingsins. Annmarkana við flutninginn metur hann lítils, en kostina mikils. Hann talar að vísu tilfinninganna máli, líkt og Fjölnismenn gerðu, en þess vegna njóta líka rökin sín betur, og þau eru hjá honum ljós og skýr. Ekki virðist hann hafa trú á því, að þjóðinni birti betur fyrir augum við að fresta þingflutningnum, eða að hún þurfi lengri umhugsunartíma. Hann setur flutninginn beint í samband við 1000 ára hátíðina og segir: „Með engu móti yrði þúsund ára afmælis Alþingis betur minst en með því að endurreisa Alþingi á Þingvöllum við Öxará. Ef Alþingi yrði háð á Þingvöllum 1930 og svo þar áfram úr því, þá yrði þúsund ára afmælið haldið hátíðlegt í verkinu á hinn fegursta hátt“.

Á öðrum stað hjá sama höf. standa þessi eftirtektarverðu orð: „Það hefir stundum verið minst á það undanfarið, bæði í ræðu og riti, að virðingin fyrir Alþingi sje að þverra með þjóðinni. En virðingin fyrir þeirri stofnun má aldrei þverra og á aldrei að þverra. Einn þáttur í því starfi að auka veg þingsins er að flytja það til Þingvalla. Í kyrðinni þar mundu aflgjafar íslenskrar sumardýrðar veita nýju gróðurmagni inn í störf þess og stýra málum þess inn á nýjar og betri brautir. Þjóðin hefir altaf varðveitt lotningu fyrir Alþingi við Öxará. . . . Og fari nú fram atkvæðagreiðsla um þetta mál, mundu þau verða fá atkvæðin á móti því, að þingið fengi að flytja aftur heim á Þingvelli“.

Og enn á þriðja stað segir hann: „Það kemur líka hvort sem er að því fyr eða síðar, að Alþingi verði flutt til Þingvalla. Og mistök ein valda, verði það dregið lengur en til þúsund ára afmælisins. Það er fegursta afmælisgjöfin, sem unt er að gefa Alþingi á afmæli þess, að færa það þá aftur heim á hinn fornhelga stað“.

Með rjettu hefir verið á það bent af ýmsum, að háskóla vorn vantaði húsrúm, sem sæmilegt væri. Úr þessu mætti auðveldlega bæta, ef Alþingi rýmdi núverandi þinghús. Með lítilli breytingu gæti það um langt árabil bætt úr þeirri háskólaþörf og fullnægt hóflegum kröfum í því efni. Kæmi því bygging þinghúss eystra í stað háskólabyggingar hjer, sem ella mundi innan tíðar verða ráðist í.

Jeg hefi talið rjett að hafa þennan formála fyrir till. á þskj. 180, sem borin er fram af hæstv. forseta (BSv) og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) ásamt mjer. Vjer höfum, af ástæðum, sem taldar eru í greinargerð till., ekki álitið rjett að draga það lengur að leita þjóðaratkvæðis um þetta mál, og vjer teljum ekki hlýða að afgreiða slíkt mál öðruvísi en eftir þjóðaratkvæði. Fornt latneskt spakmæli segir: Rödd fólksins er rödd guðs. Og það á fremur við um þetta en margt annað. Vilji fólksins á að ráða í þessu efni, og mjer virðist blátt áfram óhugsanlegt, að nokkur ljettúð eða kæruleysi geti komist að í atkvæðagreiðslu um þetta mál. Hinsvegar er hugsanlegt, að misskilningur og fordómur komist að, og sannist þá það, sem hv. 4. þm. Reykv. (MJ) virðist óra fyrir í áðurnefndri grein í Eimreiðinni, að þjóðin sje enn ekki fullvaxta og þekki ekki enn sína köllun. Jeg vænti nú þess, hvort sem þingheimur er trúaður á, að þingflutningurinn takist um 1930 eða ekki, að hv. deild vilji þó ekki amast við því, að þjóðin fái að greiða atkvæði um málið og lýsa áliti sínu. Jeg get ekki öðru trúað en að henni sje það hugljúft viðfangsefni, og ekki þarf að efa, að áhuginn á 1000 ára hátíðinni fær við hana nýja vængi.

Nokkum veginn ákveðin mynd af vilja þjóðarinnar ætti að fást með því að haga atkvgr. svo sem till. á þskj. 180 gerir ráð fyrir, að atkvæði fari eftir síðustu kjörskrá fyrir óhlutbundnar kosningar til Alþingis. Um sókn að kjörstöðum má ætla, þótt aðeins eldri menn tækju þátt í landskjöri, að hún mundi þó betri en við óhlutbundna kosningu að hausti, af því að árstími er hentugri en við venjulega kjördæmakosningu að hausti, þegar ferðalög eru erfiðari.

En með öllu finst mjer ógerlegt að taka ákvörðun um hátíðarviðbúnað á Þingvöllum fyr en vitað er, hvort þingflutningur þangað muni verða um líkt leyti.

Jeg ætla svo að ljúka hjer máli mínu. En af því að ýmsum mun þykja slík nýbreytni og þingflutningur frá höfuðstaðnum nokkuð viðurhlutamikill, þá er rjett að geta þess, að hjer er þó ekki um einsdæmi að ræða. En einsdæmi var hinsvegar stofnun Alþingis 930, þótt leitað væri þá víða um lönd, er allir landsmenn, goðorðin fornu, þingin fornu, fjórðungamir, sem myndað höfðu sjerstakar heildir — alt rann saman í allsherjarrjetti, með miðstöð á Þingvöllum. Dæmin eru 3, sem jeg man um það, að löggjafarþing sjeu háð annarsstaðar en í höfuðborgum, og mun þó mega finna fleiri. Eitt þeirra, sem allir þekkja, er frá Bandaríkjunum. Þar er sambandsþingið háð í Washington, en ekki í höfuðborginni, New York. Annað dæmið er frá Ástralíu. Jeg hefi fyrir satt, að búið sje að flytja löggjafarþingið frá Melbourne í fjallahjerað fjarri borginni. Það var fyrir nokkru lögtekið þar, og mun þó ekki hafa verið gert vegna sögulegra ástæðna, eins og hjer á landi gætir. Þriðja dæmið er frá Mön. Manarbúar, sem mynda sjálfstætt ríki í skjóli Englendinga, halda enn trygð við sinn forna þingstað á þingvelli Manar (Tynwald hill), og fer þar að nokkru fram lagasetningin árlega í viðurvist almennings, þótt nokkur hluti þingstarfanna gerist í höfuðborginni, sem er aðeins fáa kílómetra frá þessum þingvelli. Þess vegna verða það ekki talin flm eða fádæmi, þótt Alþingi flyttist á sínar fomhelgu stöðvar.