11.05.1926
Neðri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í D-deild Alþingistíðinda. (3104)

84. mál, þjóðaratkvæði um þinghald á Þingvöllum

Forsætisráðherra (JM):

Jeg skal fyrst láta þess getið, að mjer finst, að þessi till. ætti að berast upp á þann hátt, að alt Alþingi fengi hana til meðferðar og tæki þátt í jafnalvarlegri ákvörðun og þeirri, er till. fer fram á. Jeg geri líka ráð fyrir því, að flm. mundu telja alt þingið bundið við það, ef þjóðaratkv. fjelli svo, að þjóðin vildi fá þingið á Þingvelli. Með öðrum orðum, það er ætlast til þess, að þingið taki fult tillit til þess, sem yrði ofan á. Hjer er aðeins ætlast til þess, að Nd. geri ályktun um þetta, en ekki Alþingi alt, og er það það fyrsta, sem jeg hefi út á till. þessa að setja.

Í öðru lagi finst mjer ekki fært að bera þetta mál undir þjóðina, nema um leið væri skýrt fyrir henni, hvaða kostnað þetta mundi hafa í för með sjer. Þó að kostnaðurinn sje ef til vill lítið atriði í augum hv. frsm. (SvÓ), þá býst jeg ekki við, að allir sjeu honum samdóma um það.

Það, sem hv. flm. sagði um kostnaðinn, nær engri átt. Hann nefndi 500 þús. En jeg hugsa, að einungis það að byggja hús eins og þetta Alþingishús, sem nú erum vjer í, sem þó mundi verða of lítið fyrir framtíðina, mundi kosta um 500 þús. kr., ef það væri bygt hjer. En það er víst, að það er miklu dýrara að byggja á Þingvöllum en hjer. Aðeins slíkt hús mundi þá kosta þessa fjárhæð, sem hv. flm. (SvÓ) nefndi. Auk þess kæmi bústaður eða nokkurskonar heimavistir fyrir þingmenn. Jeg geri ráð fyrir, að þær mundu ekki kosta minna en hinar fyrirhuguðu heimavistir við mentaskólann, og get jeg ekki skilið, að hægt yrði að byggja slíkt hús á Þingvöllum fyrir minna en 200–300 þús. kr. Þetta er nú það sjálfsagða, og auk þess kemur prentsmiðja og fleiri byggingar. Læt jeg mjer nægja að nefna þetta, til þess að sýna, hve alt er í lausu lofti hjá hv. flm.

Hv. flm. (SvÓ) nefndi það, að Jón Sigurðsson hefði verið snortinn af þeirri hugmynd að flytja þingið til Þingvalla. Um það þarf ekki að tala. Hann skrifaði þegar í upphafi svo ákveðið á móti því að flytja þingið til Þingvalla, að ákveðnara þurfti það ekki að vera. Hann viðurkendi, að Þingvellir hefðu nokkra kosti fram yfir Reykjavík sem þingstaður, en þá kosti, sem Rvík hefði fram yfir, taldi hann alveg fullnægjandi.

En það er ekkert aðalatriði í þessu máli, hvað hann hefir sagt, því að nú eru breyttar ástæður frá því, sem þá var. Það gæti verið ástæða til þess nú að flytja þingið, þótt ekki væri þá.

Í upphafi hafði þingið ekki neitt flókin mál til meðferðar og brúkaði lítið bókasöfn og þessháttar. Hv. flm. nefndi eitt atriði, sem ekki kom svo mjög til greina áður fyr, að það yrði að vera einhver undirdeild frá stjórnarráðinu á Þingvöllum. Jeg sje nú ekki, hvernig því verður komið fyrir. Jeg veit ekki, hvernig hann hefir hugsað sjer þetta, því að alt þetta mál er mjög óundirbúið. En jeg get ekki skilið, að unt sje að hafa neina undirdeild á Þingvöllum. Jeg get að vísu hugsað mjer, að hver ráðherra hefði sinn ritara með sjer, en það væri þó ekki nóg. Jeg held, að það sje nauðsynlegt að hafa stjórnardeildirnar á sama stað og þingið, og það eru býsna miklir örðugleikar á því, að ráðherrarnir sjeu allir um lengri tíma í burtu frá aðsetursstað stjórnarinnar. En þó gæti það verið hugsanlegt, ef hv. þm. væru hlyntir því að leggja járnbraut til Þingvalla. Nú lofar hv. þm. járnbrautina í sambandi við þetta mál. (SvÓ: Hefi ekki nefnt hana.). Víst mintist hv. þm. á járnbraut í þessu sambandi. Annars mundi jafnvel járnbraut til Þingvalla ekki gera þá að vel föllnu alþingissetri.

Jeg ætlaði ekki að halda langa ræðu, þar sem lítið er eftir af þingtímanum og mörg mál eftir að afgreiða. Þó vildi jeg enn benda á eitt af því, sem flm. færði fram máli sínu til stuðnings, að þingið hefði betra næði, yrði ekki fyrir eins mikill ásókn á Þingv. En annað veifið var hann þó að tala um, að fólk mundi safnast saman á Þingvöllum um þingtímann, að mikill hluti manna víða eins mikilli ásókn á Þingv. En annað veit jeg þá ekki, hvað yrði um næðið. Þeir, sem eitthvað þekkja til heimsókna á Þingvöllum á sumrin, vita best um næðið þar. Og það er engin hindrun fyrir þá menn að skreppa til Þingvalla, sem eitthvað vilja fá hjá þinginu. Hvernig svo sem menn líta á þetta, þá er ómögulegt að ráða þessu máli til lykta í flýti, án frekari athugunar. Jeg skil ekki, að deildin geti samþ. till. Jeg tel sjálfsagt, að hana verði að athuga í nefnd. Slíka ákvörðun má ekki taka athugunarlaust, með því að hjer er um mál að ræða, sem er mjög fallið til að snerta tilfinningar almennings.

Eitt atriði, sem var þess eðlis, að mönnum þótti ástæða til að flytja þingið til Þingvalla, hefir alveg horfið í seinni tíð. Ef menn lesa það, sem skrifað var um þetta mál kringum 1840, sjá menn því haldið fram, að Reykjavík hafi verið óþjóðlegur bær. Nú er sú ástæða fyrir flutningnum horfin. Rvík er ekki lengur óþjóðlegur bær.

Hv. flm. (SvÓ) er að tala um vilja unga fólksins. Því þá að binda atkvgr. við landskjör, þar sem unga fólkið ekki kemst að að segja vilja sinn? Því ekki að bíða eftir hinum almennu alþingiskosningum 1927?

Loks finst mjer, að þegar verið er að tala um að skipa nefnd til að athuga allan undirbúning undir þinghald á Þingvöllum í sambandi við hátíðahöldin þar 1930, þá ætti þetta atriði einmitt að athugast af þeirri nefnd.

Það verður ekki lítið, sem í verður ráðist næstu árin, ef auk landsspítalans, heilsuhælis Norðlendinga og viðbótar við geðveikrahælið á Kleppi eiga að koma byggingar í sambandi við þing á Þingvöllum. Mjer skilst, að þetta verði að athuga í sambandi við hátíðahöldin 1930 og í samráði við Þingvallanefndina. Jeg vil því enn ráða hv. deild til þess að hrapa ekki að því að samþ. þessa till., heldur vísa henni til nefndar eða koma henni á einhvern hátt til athugunar hjá þeirri nefnd, sem undirbýr hátíðahöldin fyrir 1930, eða láta hana bíða til næsta þings. Og ef það yrði ofan á, mætti koma með hana aftur í byrjun næsta þings og leggja til, að hún yrði lögð fyrir þjóðina í næstu almennum kosningum.

Ætti Alþingi að koma saman á Þingvöllum og eiga þar aðsetur sitt, þá yrðu þingin auðvitað að vera haldin á sumrum.

Að öðru leyti skal jeg ekki fara frekara út í umtal um till. að sinni. Aðeins bæta því við, að jeg tel það með öllu óráðlegt, eins og stendur, að flytja Alþingi hjeðan úr bænum.