12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í D-deild Alþingistíðinda. (3115)

119. mál, launakjör bæjarfógeta og lögreglustjóra í Reykjavík

Forsætisráðherra (JM):

Hv. flm. (JJ) virtist byggja allmikið á því, að jeg hefði átt þátt í því að semja lögin, sem nú gilda um bæjarfógeta- og lögreglustjóraembættin í Reykjavík. En jeg skal láta þess getið, að þessi lög eru samin algerlega án minnar tilhlutunar. Þegar er jeg var orðinn ráðherra, hlupu þingmenn til að skifta embættinu. Jeg skifti mjer ekki af því, heldur ljet það hlutlaust. En hvað snertir þessa till., að breyta launakjörum bæjarfógeta og lögreglustjóra í Reykjavík, þá er hún tilgangslaus. Svo stendur sem sje á, að þessi sjerstöku kjör þessara tveggja embættismanna byggjast á lögum frá 1917 og gilda fyrir þá menn, er nú sitja í þessum embættum. Þegar nýir menn koma, gilda almenn launalög fyrir þá. Það er þess vegna ekkert hægt að gera. Þó að samin sjeu ný lög, er ekki hægt að taka frá þessum mönnum þann rjett, er þeir þegar hafa hlotið. Það verður þá að breyta launalögunum alment. Jeg hefi ekki hugsað mjer, að hv. flm. (JJ) finni að því, þótt þessir embættismenn sitji við sömu kjör og aðrir í hliðstæðum embættum, t. d. á Akureyri og í öðrum kaupstöðum.

Sem sagt, það verður að fara lengra, ef breyta á þessu, taka til athugunar launalögin alment. Jeg býst við, að hv. flm. hafi ekki athugað þetta, og sje því till. úr sögunni, er jeg bendi honum á það.

Samanburðurinn við húsameistara og prófessora á ekki við á nokkurn hátt.

Jeg hefi þegar svarað orðum hv. flm. um það, að jeg hafi verið sparsamari í launanefndinni en er verið var að skamta þessi kjör 1917. En það er nú svo, að hv. flm. hefir stundum áður sagt annað um launalögin frá 1919 en að þau væru af sparsemi sett, sem sje það, að þau hafi reynst nokkuð þung byrði. En þau voru bygð á grundvelli þeim, er launanefndin lagði; hún var skömmuð, er tillögur hennar komu fram, en þó var bygt á þeim, eða allnærri að minsta kosti. Breytingar voru aðallega vegna breytts peningagildis. Ef hv. flm. vildi athuga till. okkar, mundi hann sjá, að þær fara hærra sumstaðar en nú gera lögin í framkvæmd, miðað við gullgildi krónunnar þá og nú.