14.05.1926
Efri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í D-deild Alþingistíðinda. (3127)

124. mál, sýslumenn og bæjarfógetar megi ekki eiga sæti á þingi

Flm. (Jónas Jónsson):

Eins og umr. er háttað í kvöld, ætla jeg ekki að fara út í langa deilu við hæstv. ráðh. (JM) um þetta mál. Hann var sjálfur með því að útiloka hæstarjettardómara frá þingsetu, og þá er ekki nema stigmunur yfir í hitt. Jeg vil benda á, þó að slíkt komi varla fyrir í rólyndinu hjer norður frá, að sumstaðar í mentuðustu löndum heimsins hefir á síðustu árum komið til svo harðrar baráttu í þinginu, að þingmenn hafa blátt áfram barist. Þó að jeg geri ekki ráð fyrir þeirri tegund af málarekstri hjer, er ekki hægt að neita því, að pólitíkin er alt annars eðlis en dómarastarfið. Pólitíkin er barátta, þar sem styrkurinn er alt og sigurinn er alt. Barátta og rjettlæti er því ekki vel samrýmanlegt. En jeg álít, að á þessu stigi málsins eigi einungis að kanna hugi manna, og vil jeg því biðja um nafnakall við atkvgr. á eftir.