08.04.1926
Sameinað þing: 4. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í D-deild Alþingistíðinda. (3135)

73. mál, kröfur til trúnaðarmanna Íslands erlendis

Forsætisráðherra (JM):

Það var sjerstaklega eitt atriði í ræðu hv. 3. landsk. (JJ), sem jeg vildi minnast á, af því að þar gætti svo mikils misskilnings, að furðu gegnir. Hv. þm. var að tala um það, að önnur þjóð rjeði yfir málum vorum. Þetta er sá herfilegasti misskilningur, sem einn þm. getur gert sig sekan um. Það ræður engin önnur þjóð yfir neinum málum vorum, en það eru sjálfsagt utanríkismálin, sem hv. þm. (JJ) á hjer við, en þau eru auðvitað að öllu leyti á okkar valdi, þó að önnur þjóð fari með þau fyrir okkur, eftir okkar umboði. Jeg ætla ekki að fara lengra út í þetta mál, því að það er annars ekki mikil ástæða til að vera að orðlengja um þennan undarlega misskilning, sem jeg þó hefi orðið var áður hjá hv. þm. (JJ) við undirbúning undir kosningar. Og er það algerlega rangt hjá hv. þm. (JJ), sem þykist vera maður sögufróður, að halda því fram, að það hljóti altaf að fara illa, þótt önnur stærri þjóð sje fengin til þess að fara með utanríkismál annarar minni. Þess eru dæmi enn þann dag í dag, að slíkt getur farið vel og að enginn skaði þarf að verða af því, og það er ekki til neins fyrir hv. þm. (JJ) að fara að velja dæmi frá Svíþjóð og Noregi til sönnunar þessu. Jeg ætla ekki að fara að gera svo lítið úr hv. þm. (JJ) að gera annað en að benda á það, að þessu er alt öðruvísi háttað.

Hv. þm. (JJ) var að tala um ýms dæmi þess, að íslenskir valdsmenn hefðu komið ósæmilega fram erlendis, en sagði á hinn bóginn ekkert um það, hverjir þessir menn hefðu verið. Jeg skoða þetta sem órökstuddar glósur, sem jeg veit ekkert um hvort sannar eru. Það getur verið, að einhver embættismaður hafi gert eitthvað öðruvísi en átti að vera erlendis, en jeg álít rangt að vera að sletta þessu hjer og kasta þannig skugga á embættismenn landsins. Að svo vöxnu máli, á meðan engin sönnun hefir verið færð fyrir neinu ósæmilegu að þessu leyti, verð jeg að telja slíka ásökun ranga.

Jeg hafði annars ekki hugsað mjer, að jeg þyrfti að tala neitt um þetta mál, en mjer skilst, að hv. þm. (JJ), sem annars hefir haft allmikið á móti því, að við hefðum sendimenn erlendis, væri nú að færa rök fyrir hinu gagnstæða. Jeg skal heldur ekki fara neitt út í sögu þjóðar vorrar fram að þeim tíma, sem þjóðveldið leið undir lok, en jeg er ekki alveg viss um, að skýrsla hv. þm. (JJ) um það efni hafi verið svo sjerlega heppileg. Jeg vil þó ekki lengja umræðurnar um málið með því að fara út í þetta atriði frekara. En tillagan sýnist mjer mjög óþörf. Jeg held, að yfir höfuð sje óhætt að segja það, að þeir menn, sem sendir hafa verið til annara landa fyrir þjóðarinnar hönd, hafi komið sómasamlega fram og landinu ekki til neinnar minkunar. Vjer höfum sent menn í ýmsum erindum, og þar á meðal einn reglulegan sendiherra, og held jeg, að við getum talið okkur hafa haft sóma af.

Það hefir margoft áður verið talað um sendiför Gunnars Egilssonar til Madrid, við spönsku samningana, og það hefir líka margoft verið sýnt fram á það, að þótt þessi maður hefði máske aðrar skoðanir á máli, sem þar kom til samninga, þá hefir hann sjálfsagt gefið rjettar upplýsingar um það, hve örðugt það væri að kalla saman þing með svo stuttum fyrirvara. Samningana hafði danski sendiherrann í París fyrir okkar hönd, en Gunnar Egilsson fór tvisvar frá Ítalíu til Spánar til þess að vera til aðstoðar sendiherranum, vegna kunnugleika á landsháttum. Gunnar Egilsson er svo heiðarlegur maður, að hann hefir ekki látið sína skoðun um bannmálið ráða neinu. Í seinna skiftið fór hann ásamt tveim bannmönnum, og mætti þá ætla, að sú sending hefði ekki orðið til skaða.