08.04.1926
Sameinað þing: 4. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í D-deild Alþingistíðinda. (3144)

73. mál, kröfur til trúnaðarmanna Íslands erlendis

Jón Auðunn Jónsson:

Það er ergilegt að hlýða á hv. 3. landsk. (JJ). Hann er altaf, við hverja átyllu, að staglast á gömlu og niður kveðnu rógsmáli um Gunnar Egilsson. Það er hverjum manni ljóst, að hann (GE) rak einarðlega og samviskusamlega erindi vort á Spáni. (JJ: Hann sigraði, eða var það ekki?). Viðskiftanefnd hjer á Alþingi 1922 rannsakaði rekstur þessa máls, og voru allir nefndarmenn, þar á meðal ýmsir merkustu bannmenn, á eitt sáttir um það, að hann hefði rekið erindi sitt með hinni mestu prýði. Þetta sýna þessi ummæli í áliti viðskiftanefndar, sem jeg vil leyfa mjer að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefir margsinnis rannsakað öll skjöl, sem fyrir liggja um samningana, og getur ekki sjeð annað en þeir hafi verið reknir með allri þeirri vandvirkni, sem unt er, bæði af hendi utanríkisráðuneytisins danska, sendimanns vors, Gunnars Egilssonar, sem nú er búsettur í Barcelóna, stjórnarinnar íslensku, og nú loks af hinum síðari sendimönnum“.

Undir þetta hafa skrifað t. d. Þorsteinn M. Jónsson og fjöldi annara einlægra bannmanna. Það verður því ekki annað sjeð en að þessi hv. þm. (JJ) sje að ófræga þennan mann, sem er í öðru landi, og getur því ekki borið hönd fyrir höfuð sjer, — það verður ekki annað sjeð en að það sje gert til þess eins að svala ódrenglyndi sínu og mannskemdafýsn. (JJ: Jeg rökstuddi alt, sem jeg sagði). — Hv. flm. (JJ) hefir ekki rökstutt þetta með öðru en því, að reyna að smeygja því inn hjá mönnum, að það sje dauðasynd að vera andvígur banni og að bragða vín. En hv. 3. landsk. (JJ) notar þessa helgislepju bindindisins aðeins til þess að villa fólki sýn, til þess að breiða yfir aðra lesti í eigin fari, sem eru verri en drykkjuskapur. (JJ: Eins og hverja?). Eins og hverja, spyr hv. þm. Eins og rógeðlið, baknagið, ósannindaástríðuna og Gróusögulöngunina. (JJ: Jeg skora á hv. þm. að sanna orð sín). (Forseti hringir). Já, það er sannanlegt, og það veit allur þingheimur, að þessi hv. þm. hefir farið með stórkostleg ósannindi í kjöttollsmálinu frá lokuðum fundum í sameinuðu þingi. Er þetta karlmannleg drenglund hjá vínbannsmanninum? Sannanirnar fyrir því liggja t. d. þarna í töskunni minni, á borðinu fyrir framan hv. þm. (JJ). Jeg veit ekki, hvað lengi jeg á að láta þær liggja þar til að freista hans, en hann skal vita það, að jeg birti þau plögg einhverntíma.