08.04.1926
Sameinað þing: 4. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í D-deild Alþingistíðinda. (3146)

73. mál, kröfur til trúnaðarmanna Íslands erlendis

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vil aðeins skjóta inn örstuttri athugasemd, til að lýsa minni ákaflegu undrun á brjóstheilindum hæstv. fjrh. (JÞ), þegar hann vill halda því fram, að hann og hans stjórn hafi unnið afrek í að fá lækkaðan ullartollinn í Bandaríkjunum. Og þó keyrir ósvífnin úr hófi, þegar hann fer að senda fyrv. stjórn hnútur út af því máli. Jeg verð að segja, að það eru þau mestu brjóstheilindi, sem jeg hef vitað af þessum hæstv. ráðh. (JÞ). Jeg vil sjerstaklega staðfesta það, sem hv. 2. þm. Rang. (KlJ) sagði, sakir þess, að jeg er þessu máli mjög kunnugur. Jeg var talsvert við það riðinn, sem fór þá á milli hæstv. stjórnar og Samb. ísl. samvinnufjelaga. — Það er rjett, að þegar fengnar voru upplýsingar, var komist að þeirri niðurstöðu, að besta leiðin væri málssókn. Varð það úr, að firma, sem seldi íslenska ull í Bandaríkjunum, fór í málið og fjekk fyrir sig einn hinn merkasta lögfræðing, og var það álit hans, að þetta væri tvímælalaust fljótlegasta og vissasta leiðin. — Það kom einnig fram í Morgunblaðinu, að formaður Verslunarráðsins hafi gert tilraun til að fá bætt úr þessu á sama grundvelli. — Og jeg vil bæta því við þær upplýsingar, sem hv. 2. þm. Rang. (KlJ) gaf, að fregnin um tolllækkunina var komin til S. Í. S. hálfum mánuði áður en hún birtist hjer í blöðunum. (MG: Hálfum mánuði?). Jeg fullyrði ekki, að það hafi verið upp á dag hálfur mánuður, en það var nálægt því. Og fregnin kom einmitt frá þessu firma, sem fór í málið fyrir S. Í. S. — Það skyldi því engan undra, þótt það kæmi í ljós, að það væru aðgerðir fyrv. stjórnar, S. Í. S. og formanns Verslunarráðsins, sem hafi komið lagi á ullartollsmálið. Jeg verð því að endurtaka, að það er fádæma ósvífni og brjóstheilindi af hæstv. fjrh. að hrósa sjer af þessu máli.