08.04.1926
Sameinað þing: 4. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í D-deild Alþingistíðinda. (3149)

73. mál, kröfur til trúnaðarmanna Íslands erlendis

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg ætla ekki að nota þessa stuttu aths. til að munnhöggvast við þá hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ). Jeg býst við, að þessi mikla geðæsing þeirra stafi af því, að atkvgr. stendur nú fyrir dyrum, og að þeim sje nokkur uggur í brjósti yfir að vera skipað að nota atkvæði sín til að vinna á móti niðurstöðu, sem allur heilbrigður hluti þjóðarinnar veit að er sjálfsögð og rjett. Þetta mál hlýtur að marka spor í sjálfstæðissögu þjóðarinnar. Þetta eru heilbrigðar kröfur, og ef þeim er ekki hlýtt, þá er úti um sjálfstæði Íslendinga. Þetta mál er ekki borið fram af neinum persónulegum ástæðum, svo sem marka má af því, að í fyrstu ræðu minni mintist jeg alls ekki á hinn margbrotlega sendimann. Jeg bjóst við því, að hæstv. stjórn mundi samþ. þessa þáltill., en nú er það sjeð, að hún ætlar að fella hana, því að rökstudd dagskrá er aðeins önnur aðferð til að fella málið. En þeir hv. þm., sem greiða því atkv. að vísa þessu máli frá, hljóta jafnan, meðan þeirra er minst, að bera merki gerða sinna nú í dag.