05.05.1926
Efri deild: 67. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í D-deild Alþingistíðinda. (3164)

100. mál, málshöfðun gegn Sigurði Þórðarsyni

Flm. (Jónas Jónsson):

Það er vanalega svo, að þegar við hæstv. forsrh. (JM) höfum verið að tala saman eftir langan aðskilnað, þá slær hann fyrst á skjöldinn, talar um ágæta þekkingu sína í lögfræði og lætur borginmannlega. Þá er ætíð nauðsynlegt að stinga á þessum vindbelg og losa hæstv. ráðh. við nokkuð af því lofti, sem hann er orðinn uppfullur af. Eftir þessa umbót verður hann ofboð umgengilegur maður.

Þessa aðferð hefi jeg haft í dag. Hæstv. ráðh. byrjaði nú með því að játa, að hann væri lítill ræðumaður, ljet lítið yfir lagaþekkingu sinni og hafði hitt fyrir sjer mann úti í bæ, er betur vissi en hann. Vindurinn er kominn úr belgnum.

Það gladdi mig að heyra, að hann er sammála okkur hv. 1. landsk. (SE) í því að fordæma föðurlandsást stjórnarblaðsins og að hann tók það fram, að hann vildi ekkert sálufjelag hafa við ritstjórann. Hlýtur öllum að þykja það gleðilegt landsins vegna.

Þá sagði hæstv. forsrh., að jeg væri ekkert harður í kröfunum í sjálfstæðismálum þjóðarinnar, og átti þar við sendiherrann. Hann veit þó, að það, sem þar ber á milli, er það, að jeg er ekki eins ánægður og hann með sambandssamninginn 1918. Jeg benti á, að það væri undarlegt við frelsi landsins, er við gætum ekki haft íslensk-danskan ræðismann í Genúa; þar yrði að vera danskur maður. Það, sem jeg hefi út á samninginn að setja, er það, hve lítið frelsið er út á við. En fyrst þjóðin hefir verið með samningnum og viðurkent hann, þá má hún ekki svíkja hann. En jeg er hræddur um, að hæstv. ráðh. sje þar öllu linari en jeg gagnvart því, hvernig eigi að nota uppsagnarákvæði hans. Hann hefir ekkert sagt um það, hvort við ættum aftur að verða fullkomlega sjálfstæð þjóð. Sendi jeg því ummæli hans heim aftur með fullri vissu um, að meiri þörf sje fyrir hann en mig að „reformera“ sjálfstæðishug sinn.

Í dag reyndi hæstv. ráðh. að halda því fram, að hann hefði getað komist af án stuðningsblaða. En nú hefir hann játað að hafa átt í blöðum, verið í ritnefnd sjálfur. Og þar sem hann er að tala um hnútur í sinn garð í blöðum andstæðinganna, þá komu þó aldrei í nokkru íslensku blaði eins harðvítugar árásir og í Lögrjettu um Björn Jónsson. Vil jeg því ekki láta hæstv. ráðh. hafa grið heldur í þessu rangfengna skjóli, að hann hafi setið á friðstóli eða blað hans verið fyrirmynd í rithætti. Ef hann man nokkuð fram í tímann, þá man hann eftir 60–70 meiðyrðamálum við blað, sem hann var í ritnefnd við. En það spor var rjett, þótt aðeins væri hálfstigið, þegar hæstv. ráðh. gekk úr ritnefnd blaðsins, hefði hann þá þegar hætt við pólitík um leið og hefði dómsmálaráðherra (JM) svo sett hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) það skilyrði, þegar honum var veitt bæjarfógetaembættið, að hann mætti ekki fást við pólitík, þá myndi það óneitanlega hafa styrkt aðstöðu hans sem dómara að vera ekki viðriðinn flokkadeilur. Og þó ekki væri annað en annríki af þingsetum, sem gert hefði þetta nauðsynlegt, þá var það alveg nægilegt.

Hæstv. forsrh. (JM) getur aldrei að eilífu afsakað skifti sín af sýslumannsembættinu í Árnessýslu. Hann veit, að embættisþjónustan var alls ekki sæmileg. Ein sönnunin er, að einn af þessum sýslumönnum gerðist afbrotamaður við lögregluþjóninn í Rvík. Því verður alls ekki haldið fram, að hann hafi verið forsvaranlegur dómari handa nokkru hjeraði.

Þá kom þessi gamli útúrdúr um það, hve mikið ráðh. vissi um hina nýju strauma. En hann hefir ekki kynt sjer frumheimildina um þetta mál. Þó ætti hann að vita, að endurbótamenn í hegningarlögum ætlast til, að dómarinn sje eins mikill læknir og hann er lögfræðingur. En þetta kemur alls ekki fram í neinu frv., sem hæstv. ráðh. (JM) hefir samið. Hann hefir ekkert skrifað um þetta, engan frætt um það. Hæstv. ráðh. hefir vitað jafnmikið um þetta eins og sá maður, sem færi að lesa um Darwin og kynna sjer hann eingöngu af ritum ljelegra lærisveina. Hæstv. ráðh. hefir náð í einhvern lausafróðleik um málið og bygt á því þetta eina frv., sem hann hefir þó ekki haldið til streitu.

Það gleður mig að koma nú að atriði, sem við erum samdóma um. Hann heldur því fram, að stjórnmálamennirnir geti fremur notað almannadómstólinn en hinn „júridiska“. En hjer er ekki hægt að nota almannadómstólinn. Hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) hefir játað, að árás S.Þ. væri „krítik“ á embættisrekstri hans, og væri þá afleiðingin af henni, málssókn fyrir ummælin í „Nýja sáttmála“, eins eðlileg og þegar embættismenn í gamla daga voru að hreinsa sig og fengu gjafsókn. Jeg hefi skrifað hjá mjer nokkrar línur, þar sem kemur fram skoðun hæstv. ráðh. (JM) að því er snertir meiðyrðamál:

Það væri „broslegt, ef Alþingi færi að höfða mál, þótt sagt sje misjafnt um það“ og það væri „fremur lítilmannlegt, ef Alþingi gæti ekki þolað dóm, og því síður, sem þetta er gífurlegra“. Það væri „aumt þing, sem sinti slíkum gífuryrðum“. Enn fremur sagði hann: „Það er furðulítil vörn í meiðyrðamálum fyrir sóma einstaks manns eða fjelags“.

En því lætur hann þá blöð flokksins stöðugt vera að hamra á meiðyrðamálshöfðun? Þetta er þá bara skollaleikur, fyrst furðulítil vörn er í meiðyrðadómum fyrir þá, sem ofsóttir eru, en að það sje almannadómstóllinn, sem stjórnmálamennirnir eigi að snúa sjer til. Er þá hæstv. ráðh. kominn á þá skoðun mína, að meira virði hafi verið fyrir ritstjóra „Tímans“ að vinna síldarmálið fyrir almannadómstóli en fyrir Magnús Pjetursson að vinna það fyrir „júridiskum“ dómstóli.

Viðvíkjandi því, hvort þingið gæti farið í mál, þá vil jeg ekki segja hið sama og einn góður maður úti í bæ, að það sje vafasamt. Verði till. samþ., rannsaka forsetar þingsins allar leiðir, hvað gera skuli.

Hæstv. ráðh. reyndi að sanna, að tilfellið með Thorup dómara væri sjer í vil, til þess að fara ekki í mál við höf. „Nýja sáttmála“. Það er áreiðanlega öðrum meira í vil, því að dómsmálaráðherra Dana áleit skylt að fara í mál, þótt Thorup væri vitanlega saklaus af ásökunum kaupsýslumannsins, en hann áleit það formlega rjettast, að farið yrði í mál, þar sem embættismaður átti í hlut. Eins og jeg hefi bent á, hefir hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) látið dólgslega um það, að ef hann hefði ekki vorkent S. Þ., þá gæti málssókn komið til greina. Það er því ekki til neins fyrir hæstv. ráðh. að tala um það sem einhverja vitleysu að fara í mál, síst þar sem blöð hans eru svo fús til málaferlanna. Jeg hefi aðeins dregið rjettar ályktanir af því, sem látið hefir verið í ljós í blöðum stjórnarinnar og því, sem hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) hefir sjálfur sagt um þetta mál sem sakamál. Og svo er nýtt dæmi frá Danmörku, þar sem um er að ræða dómara, sem hefir meiri frægð en hv. þm. Seyðf. Þar sem hæstv. ráðh. (JM) segir, að það sje vítavert að hreyfa þessu máli á þingi, þá áfellist hann blöð sín og auglýsir, að hann viti ekki, hvað hliðstætt gerist hjá öðrum þjóðum. Það, sem liggur fyrir, er að fá skorið úr því, hvað Alþingi á að gera, þegar það verður fyrir órökstuddum dómum, og hvort stjórnin vill taka afleiðingunum af því, sem hún prjedikar öðrum.

Jeg held, að það verði ekki misskilið, hvað hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) er sagnafár, en það, sem hann segir, bendir til, að umræðumar snerti hann mjög alvarlega. Hann segist hafa að engu, hvað jeg segi um fulltrúa hans. Jeg hefi alls ekki verið að dæma þá. Jeg hefi sýnt, að það, sem stendur prentað, á ekki við fulltrúana, en jeg hefi sagt, að einn af fulltrúunum hafi játað á sig að hafa dæmt „stauparjett“, og í því tilliti stendur hv. þm. Seyðf. varnarlaus, Og jeg held, að það sje enginn vinagreiði við þann mann að vera að flagga með nafni hans, eins og nú er komið.

Jeg held, að það sje orðið alveg ljóst af meðferð málsins í deildinni, að klofningur sje í lífsskoðun stjórnarflokksins í þessu efni. Aðalritstjóri flokksins segir, að bókin sje þrungin af föðurlandsást. Stjórnin telur hana áfellisdóm á sig og rjettarfarið og vill ekki una dómi ritstjórans. Hún afneitar blaðinu. Í öðru lagi hefir hæstv. forsrh. (JM) í orði og verki fordæmt meiðyrðamálsleiðina. Hann hefir lýst skoðun sinni og venju í þessu efni. Blöð stjórnarinnar halda fram gagnstæðri skoðun. Þau telja meiðyrðamálsleiðina nauðsynlega til þess að hreinsa sig af ásökunum, þótt um órökstuddar staðhæfingar sje að ræða. Sú atkvgr., sem hjer fer fram, sker úr um þennan grundvöll, sem stjórnarblöðin hafa bygt á. Eftir honum er enginn vafi á því, að Alþingi átti að fara í mál. Eftir sama grundvelli, sem stjórnin hefir raunar lagt með málgögnum sínum, er enginn vafi á, að tveir af trúnaðarmönnum þjóðarinnar áttu, vegna embættisheiðurs síns, að fara í mál. Ef hv. deild afneitar þessum grundvelli, þá er um leið fenginn nýr grundvöllur til að byggja á. Þá vita þeir, sem skrifa um þingið líkt og Sigurður Þórðarson, að þeim verður ekki hegnt. Jeg segi ekkert um, hvort þessi grundvöllur sje rjettur eða rangur. En það liggur þá bara fyrir yfirlýstur vilji þingdeildarinnar um þetta efni. Það má þá líka gera ráð fyrir, að hjer eftir verði því aldrei haldið fram, að harðyrði pólitískra andstæðinga skuli útkljá fyrir „júridiskum“ dómstóli. Ef hv. meiri hl. deildarinnar hallast að þeirri skoðun, sem hæstv. forsrh. hefir haldið hjer fram í dag og jeg í gær, þá hljóta það að vera gleðitíðindi fyrir hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), því að sjálfsögðu losnar hann þá við það ómak að fást við meiðyrðamál framvegis. Þau hljóta að detta úr sögunni, því það er óhugsandi, að hægt sje að segja meiri svívirðingar um nokkurn mann eða stofnun en Sigurður Þórðarson hefir gert í bók sinni. Ef hv. deild kemst að þeirri niðurstöðu, að ástæðulaust sje að taka þessar árásir til greina, þá höfum við stigið eitt spor áfram í praktiskri þróun, að því er snertir rjettarvenjur.

Af því jeg geri ráð fyrir, að þetta verði í síðasta sinn, sem jeg tala í málinu, vildi jeg benda hæstv. forsrh. á nokkuð, sem hann virðist ekki hafa skilið til fulls. Jeg bauðst til að breyta orðalagi till., ef annað orðalag þætti heppilegra og í meira samræmi við skoðun hæstv. forsrh., en ef þess verður óskað, verð jeg að biðja um, að málið sje tekið út af dagskrá í þetta sinn.

Það er alveg ljóst, að Alþingi getur ákvarðað að fara í mál. En viðvíkjandi hinu, sem hæstv. forsrh. hefir haldið fram, að ekki væri hægt að skipa honum að fara í mál út af stjórnarráðskvistinum og spilling ráðherravaldsins, þá er til glögt fordæmi í þessu efni. Hæstv. forsrh. sagði, að ef samþ. yrði till. um að skora á ráðherrann að fara í mál, þá lægi í því skipun. En í því liggur ekki skipun. Hjer var samþ. í fyrra þál. frá hv. 2. þm. S.-M. (IP) um að skora á stjórnina að hafa landhelgisvarnir fyrir Austurlandi árið sem leið. Þetta var samþ., en ekki framkvæmt. Í svona till. felst ekki skipun, heldur yfirlýstur þingvilji. Ráðh. getur svo gert það upp við sjálfan sig, hvort hann vill, eftir eðli málsins, láta skera úr því með „júridiskum“ dómstóli. Að því er snertir bæjarfógetann, þá gæti stjórnin látið hann verða varan við, að það væri vilji þingsins, að hann færi í mál. Jeg hefi sannað með fordæmi, að þáltill. er bending til að sýna vilja þingsins.

Af þessum orðum mínum nú hygg jeg, að deildinni muni vera ljóst, að jeg álít talsvert hafa unnist með því að bera fram þessa till. Umræðurnar hafa orðið til þess að skýra það, hvernig þingið sjálft lítur á sig, hvað það þolir af mótgerðum og hvað æðstu embættismenn landsins telja fært að þola af rökstuddri gagnrýni. Hvernig sem farið verður með till., lít jeg svo á, að þessar umræður hafi orðið til eigi alllítils gagns. Jeg get sagt hæstv. forsrh., að fjöldi manna úti um land, sem óvanir eru hnútukasti, hafa alt aðra skoðun á rjettlæti meiðyrðamála en við. En jeg býst við, að þegar skynsamir menn hafa kynt sjer þær skoðanir, sem hjer hafa komið fram, þá líti þeir skynsamlegar á málið en áður.

Ef deildin kemst að þeirri niðurstöðu, að móðganir þær við Alþingi, sem hjer er um að ræða, verðskuldi ekki málaferli, finst mjer æskilegt, að stjórnin tilkynni þjónum sínum við málgögn þau, er hún ræður yfir, að þeir skuli ekki flíka mikið málssóknakröfum, ef þeir vilji ekki koma sjálfum forsrh. og stuðningsmönnum hans í töluverðan vanda.