19.04.1926
Efri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í D-deild Alþingistíðinda. (3183)

101. mál, byggingarstíll prestssetursins á Bergþórshvoli

Flm. (Jónas Jónsson):

Hæstv. forsrh. (JM) hefir tekið mjög vel í þetta mál fyrir sitt leyti og sömuleiðis skýrt ýmislegt í sambandi við það. Hæstv. ráðh. benti t.d. á það, að smekkmenn, eins og húsameistari og fornmenjavörður, eru óánægðir yfir að fá ekki stíl á byggingamar á þessum merkisstöðum, og að þessi algengu hús í kaupstöðum, sem eru góð þar, geta farið illa í sveitum.

Hv. 1. þm. Rang. (EP) benti á, að það ætti að vera samkomulagsatriði, hvernig stíllinn yrði hafður. Sennilega yrði þá um tvo stíla að velja, hinn svonefnda Skeggjastaðastíl, sem talinn er nú fyrirmynd um byggingar prestssetra í sveitum, og svo hugmyndina um Bergþórshvol, og ef hún yrði ofan á, mundi verða talað um Bergþórshvolsstíl.

Jeg vil nú benda hv. 1. þm. Rang. á það, að jeg held ekki, að þetta fyrirkomulag yrði neinum mun dýrara, en að ýmsu leyti hentugra en á Skeggjastöðum. Jeg gisti í sumar á Skeggjastöðum og hafði þá tækifæri til að skoða húsið, og að vísu leist mjer allvel á það. Húsið er rúmgott, og presturinn er ánægður með það. En þó eru töluverðir gallar á herbergjaskipun í húsinu, þannig, að íbúðarherbergin skiftast á 3 hæðir. Á Bergþórshvoli er hugmyndin sú, að íbúðin verði að öllu leyti á 2 hæðum, og er það miklu þægilegra. Auk þess mundi efnið úr hinum ljelega bæ, sem nú er þar, koma að betri notum með því fyrirkomulagi. Auk þessa álít jeg, að ef húsameistara tekst að leysa þessa þraut, þá mundi það verða mikill vinningur fyrir húsagerð í landinu.