19.04.1926
Efri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í D-deild Alþingistíðinda. (3186)

101. mál, byggingarstíll prestssetursins á Bergþórshvoli

Forsætisráðherra (JM):

Jeg held, að hv. 5. landsk. (GunnÓ) hafi lagt fullmikið upp úr ummælum mínum um þetta mál. Þó að jeg fyrir mitt leyti hafi ekkert á móti því, að bygt verði á þennan hátt, ef aðiljar óska þess, þá get jeg, eins og jeg tók fram, ekkert sagt um það sem stendur, hvort hægt verður að leggja fram fjeð að svo stöddu. Hvað það snertir, að hægt verði að byggja í sumar, þá efast jeg um, að hægt verði að snúast svo fljótt við þessu, að hægt verði að panta efniviðinn strax. Erindi um það er ekki einu sinni komið til ráðuneytisins. (JJ: Fjvn. er búin að skrifa stjórninni. EP: Umsóknin er komin upp í stjórnarráð). Hún hefir þá komið þangað fyrst í morgun. Enda liggur engin fjárveiting fyrir um þetta. Annars skil jeg það ekki, að þetta beri svo brátt að, að það þoli ekki, að það sje athugað í nokkra daga.

Það er rjett hjá hv. þm. (JJ), að lág hús fara betur í sveitum en há. En jeg get ímyndað mjer, að ef húsið yrði haft í bæjarstíl, þá yrði það nokkru dýrara en í Skeggjastaðastíl, sem hv. þm. kallar svo. Annars er þetta í fyrsta sinn, sem jeg heyri þann stíl nefndan. Mjer skilst, að það væri best, að þetta væri athugað af prestinum og húsameistara í samráði við kirkjustjórnina og svo farið eftir þeirri niðurstöðu, sem þessir aðiljar kæmu sjer saman um.