28.04.1926
Efri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í D-deild Alþingistíðinda. (3204)

107. mál, mæling á siglingaleiðum

Flm. (Jónas Jónsson):

Fyrir nokkrum árum var samþ. till. á Alþingi, sem gekk í þá átt, að láta ekki eingöngu fara fram mælingar meðfram norðurströnd Breiðafjarðar, heldur einnig Strandasýslu. Mjer var ekki kunnugt um hina fyrri till., þegar jeg bar fram þáltill. mína. Og jeg held, að það sje mest nauðsyn að mæla leið meðfram norðurströnd Breiðafjarðar. Samt gæti vel komið til mála, ef till. verður samþ., að bæta síðari liðnum gamla við, mælingum meðfram Strandasýslu. Verður þá þessi till. mín endurvakning á máli, sem hefir sofið alllengi, og má búast við því, að hæstv. stjórn snúi sjer þá að framkvæmdum. Ástæðan til þess, að jeg hefi vakið þetta mál upp, er í sambandi við strandferðamál Barðstrendinga, því að á Breiðafirði norðanverðum er sumpart svo grunt víða, og sumpart eru skipagöngumar háðar straumum, sem gera það að verkum, að skipin þora ógjarnan að fara þar inn. Afleiðingin er sú, að Barðstrendingar eru ver settir með samgöngur en nokkur annar landshluti. Nú liggur fyrir að bæta úr þessu með auknum skipakosti, og tillaga mín miðar að því, að þegar strandferðirnar sjeu komnar í lag, þá standi ekki á, að siglingaleiðirnar sjeu ómældar. Sá maður, sem kunnugastur er öllum leiðum þarna, Snæbjörn Kristjánsson, bóndi í Hergilsey, hefir skrifað um þetta mál. Segir hann, að komast megi á litlu skipi alstaðar meðfram ströndinni, ef leiðirnar eru nákvæmlega mældar. Þessar mælingar koma ef til vill til með að kosta talsvert fje, og eftir því, sem siglingafróðir menn hafa sagt mjer, myndi ef til vill þurfa útlenda menn til þess að framkvæma þetta.

Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. stjórn láti heyra álit sitt, og ef hún telur málið vert stuðnings, þá láti hún koma til framkvæmda sem fyrst, ef till. verður samþ.