04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í D-deild Alþingistíðinda. (3224)

107. mál, mæling á siglingaleiðum

Atvinnumálaráðherra(MG) :

...*) Hins vegar skil jeg ekki í, að neinn geti búist við, að allar þessar uppmælingar verði framkvæmdar þegar á næsta ári eða næstu árum. Jeg verð að segja, eins og áður, að mjer virðist ekkert undarlegt við það, þótt „Þór“ væri t. d. ætlað að mæla upp siglingaleiðina inn til Hallgeirseyjar, á meðan hann er til varna þar með söndunum, eða að gæta neta fyrir Vestmannaeyinga. Jeg get líka hugsað mjer, að fá mætti mann frá útlöndum, sem hafður yrði svo á vitabátnum eða Þór og látinn annast mælingarnar. Því þó að skipið sje við strandvarnir, er það ekki altaf á ferðinni, heldur liggur stundum lengi inni á höfnum, og ætti það þá að geta sjeð um eitthvað af þessum mælingum. En sem sagt, jeg vil endurtaka þetta, sem jeg sagði áðan, að jeg vona, að hv. þdm. sjeu ekki svo ósanngjarnir að heimta, að allar þessar uppmælingar fari fram á næsta ári eða næstu árum.

*) Byrjunina á ræðunni vantar. — M.G.