04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í D-deild Alþingistíðinda. (3228)

107. mál, mæling á siglingaleiðum

Þórarinn Jónsson:

Ef jeg á að geta greitt því atkv. að vísa málinu til stjórnarinnar, verð jeg fyrst að vita, hvort þessar mælingar verði látnar ganga jafnt yfir alla, og fá einhverja vissu eða loforð um, að mitt kjördæmi verði ekki út undan. Hindisvík er nú löggiltur verslunarstaður, en aðeins örfá skip fást til þess að koma þar við, vegna þess, að innsiglingarleiðin hefir ekki verið mæld upp. Hitt má vel vera, að Leirhöfn á Sljettu hafi eitthvað meira til síns ágætis, þar sem svo greið loforð hafa verið gefin um uppmæling hennar, en þó vil jeg vita, hvort Hindisvík verði sett hjá, vegna þess að jeg á þar hlut að máli.