05.05.1926
Neðri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í D-deild Alþingistíðinda. (3238)

95. mál, lánveitingar úr Fiskveiðasjóði Íslands

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg verð að segja það, að mjer hefði fundist rjettara af hv. flm. (JAJ) að láta till. koma fram í því formi að skora á stjórnina að breyta ekki reglunum um lán úr Fiskiveiðasjóðnum, í stað þess að skora á þingið, því að stjórnin og konungur eru þeir aðiljar, sem ákveða, hvernig farið er með sjóðinn, og geta breytt lánskjörum hans, upphæð lána o. fl., en ekki löggjafarvaldið, a. m. k. ekki með þál. Og þótt þetta mál hafi verið borið undir hv. sjútvn., þá var það aðeins gert til þess að vita um hug þeirra, sem að sjávarútveginum standa. Mjer leist orðalag till. vera hálfeinkennilegt, er jeg fyrst las hana, en eftir því, sem hv. flm. (JAJ) hefir nú mælt fyrir henni, hefi jeg ekki athugasemdir að gera við orðalagið.

Lánin úr sjóði þessum eru flest litlar fjárhæðir, og þótt ekki hafi, mjer vitanlega, verið neitað um neitt lán, sem um hefir verið beðið, ef sæmileg trygging hefir verið boðin, þá hefir þó safnast fyrir í sjóðinn um 200 þús. kr. Þetta virðist mjer sýna, að lánafyrirkomulagið í sjóðnum er orðið úrelt. Það eru of lágar upphæðir, sem heimilt er að lána, eftir núverandi gildi peninga.

Hafnarstjóri Reykjavíkur kom til stjórnar sjóðsins í haust og bað um að fá á annað hundr. þús. kr. lán úr sjóðnum til hafnarbóta í Rvík. Var því til svarað, að það væri ekki hægt samkv. reglugerðinni, en ef hv. sjútvn. Alþingis mælti með því, skyldi það gert, eins og fordæmi var fyrir frá 1922. Hefir hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) skýrt frá því, hvern endi þetta fjekk í sjútvn. Eftir þetta komu tvær beiðnir, frá Akureyri og Akranesi. Beiðninni frá Akranesi er hægt að sinna samkvæmt reglugerðinni, og þarf ekki að ræða um hana. Er þá um 2 lán að ræða, Reykjavíkur og Akureyrar. Um Akureyri er það að segja, að vetrarlega á höfninni þar er orðin of lítil, að því er mjer er sagt, og þarf því að stækka hana. Til þess þarf að fá lán, því að þótt hafnarsjóður sje vel stæður, getur hann ekki lagt fram fúlguna á einu ári, en jeg tel víst, að sjóðurinn geti, eftir tekjum sínum að dæma, endurgreitt lánið á 5 árum eða ef til vill skemri tíma. Hinsvegar er farið fram á lengri tíma með Reykjavíkurlánið.

Annars vil jeg benda á, að jeg verð að álíta, að heimilt sje, samkvæmt 3. gr. í auglýsingu um skipulag sjóðsins. að veita lán til bryggjugerðar og til að byggja skipalægi. Í auglýsingunni stendur sem sje svo, að lán megi veita „til hverskyns annara atvinnubóta við fiskveiðar og fiskverkun, og telst þar til . . . lendingabætur og byggingar og áhöld til að draga upp, varðveita og gera við skip“.

Jeg held því þess vegna fram, að hjer sje ekki um annað að ræða en að veita hærri lán en gert er ráð fyrir í reglugerð sjóðsins. Það er ekki farið fram á að veita lán til annara fyrirtækja en þar er gert ráð fyrir. Það er ekkert undarlegt, þó veita þurfi hærri upphæðir nú en gert var ráð fyrir í upphafi, þar sem gildi peninganna hefir breyst svo mjög. Það er ekki heldur undarlegt, þó hægt sje að veita hærri lán nú, þar sem sjóðurinn er orðinn miklu stærri. Eftir þeim fyrirspurnum, sem komið hafa um lán, sýnist ekki ástæða til að ætla, að ekki verði hægt að fullnægja lánum til fiskiskipakaupa, þó að þessi lán verði veitt. Þessi hræðsla hjá þeim, sem bera fyrir brjósti hag smáútgerðarinnar, er því, að jeg held, óþörf og ástæðulaus. Það er líka nauðsynlegt að fá hjer í bænum fleiri bryggjur, meiri kyrð í höfnina, svo að skip sjeu óhultari. Á það ber líka að líta, að boðnir eru góðir vextir. Við það eflist sjóðurinn og verður færari til að gegna skyldustörfum sínum framvegis. Jeg verð að líta svo á, að ekki sje rjettmætt að halda peningunum í sjóðnum og rjettara sje að veita þessi umbeðnu lán. Þau eru öll í samræmi við skipulagsskrá sjóðsins og lama ekki lán til fiskiútgerðar.