05.05.1926
Neðri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í D-deild Alþingistíðinda. (3240)

95. mál, lánveitingar úr Fiskveiðasjóði Íslands

Ólafur Thors:

Ræða hv. flm. (JAJ) gaf ekki sjerstakt tilefni til andsvara.

Jeg skal upplýsa, að sjútvn. var ekki kunnugt um, að von væri á lánbeiðnum úr kjördæmi hv. flm., lánbeiðnum, sem hv. flm. sýnist bera svo mjög fyrir brjósti. Jeg geri ekki ráð fyrir, að vitneskjan um þessar lánbeiðnir mundi hafa ráðið stefnu nefndarinnar í þessu máli. En hinsvegar geri jeg mjer vonir um, að það breyti afstöðu hv. þm., að jeg hefi þegar upplýst, að þótt fullnægt verði þeim lánbeiðnum til hafnabóta, sem hjer er rætt um, þá muni samt verða hægt að veita lán eins og þau, er hv. flm. telur von á frá kjördæmi sínu.

Jeg leyfi mjer svo að gera það að minni uppástungu, að málinu verði vísað til hæstv. stjórnar.