08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í D-deild Alþingistíðinda. (3250)

77. mál, vínsala ríkisins á Siglufirði

Flm. (Einar Árnason):

Það hefir orðið alllangur dráttur á, að till. þessi kæmi til umr., og er sá dráttur mjer einum að kenna. Liggja til þess ástæður, sem jeg hirði ekki að nefna, enda hafa þær engin áhrif á málið.

Jeg þarf ekki að tala hjer langt mál, vegna þess, að efni þessarar till. er kunnugt í deildinni frá tveim undanförnum þingum. Þarf líka engum að koma það á óvart, þó að jeg flytji það nú, þar sem legið hefir frammi í lestrarsal þingsins áskorun frá yfir 500 kjósendum á Siglufirði um að leggja niður vínsölu ríkisins þar.

Þegar jeg flutti samskonar till. og þessa fyrir tveim árum, lýsti jeg að nokkru vandræðum þeim og siðspillingu, sem vínsölunni hefði orðið samferða. Jeg ætla ekki að endurtaka það nú og sje heldur enga ástæðu til þess, þar sem jeg er fyrirfram fullviss um, að allir hv. þdm. skilja og viðurkenna, að það er ekki aðeins full ástæða, heldur og brýn nauðsyn, að afnema áfengissöluna þar. Þegar svo þar við bætist, að flestallir alþingiskjósendur á Siglufirði óska eindregið eftir að losna við þessa plágu, þá er ekki að undra, þó spurt verði og það í alvöru, hvers vegna ekki sje búið að leggja niður vínsöluna á Siglufirði.

Þeir menn eru margir meðal þjóðarinnar, sem líta svo á, að þegar þessar tvær ástæður eru fyrir hendi, siðspillandi áhrif vínsölunnar og eindregin ósk hlutaðeigandi íbúa að losna við hana, þá sje ekki snefill af ástæðu eftir til að halda henni áfram.

Það er einkum tvent, sem ætíð hefir verið borið fram sem ástæður gegn niðurlagning þessarar vínsölu. Í fyrsta lagi það, að ríkissjóður hafi svo miklar tekjur af vínsölunni á Siglufirði, að hann megi ekki við að missa þær, og af þeirri ástæðu verði að halda í hana. Í öðru lagi, að það sje brot á verslunarsamningi við Spán, ef fækkað sje útsölustöðum í landinu frá því, sem nú er.

Um fyrra atriðið er það að segja, að jeg er persónulega sannfærður um, að engin stjórn, hvorki sú, er nú situr, nje nokkur önnur, láti slíkt hafa áhrif á gerðir sínar í þessu efni. Get jeg því slept að minnast á það. Þá kem jeg að síðara atriðinu. Verð jeg að játa, að sje sú ástæða á rökum bygð, þá er hún svo veigamikil, að fram hjá henni verður ekki gengið. En nú er það svo, að margir líta svo á, og er jeg einn í þeirra tölu, að niðurlagning vínsölu á Siglufirði sje alls ekki brot á þeim samningi, sem gerður hefir verið við Spánverja. Og jeg held, að mjer sje óhætt að segja, að alment er því ekki trúað, að það væri neitt brot á samningnum, þó ekki væri útsala annarsstaðar en í Reykjavík.

Þegar þetta Spánarmál var til meðferðar hjer í þinginu fyrir 3–4 árum, var því haldið fram af þeim, sem voru hlyntir því að láta að óskum Spánverja, að það væri þeim aukaatriði, hvort hjer seldist mikið eða lítið af þessum umræddu vínum. Spánverjar sjálfir mundu líta svo á, að það skifti engu fyrir vínframleiðslu þeirra eða vínmarkað, hvort við, þessar fáu hræður hjer uppi á Íslandi, drykkjum meira eða minna af því. Hitt mun hafa verið aðalatriðið fyrir þeim, að brjóta á bak aftur bannstefnuna hjer á landi. Að þetta hafi verið svo, má ótvírætt sjá á orðalagi undanþágulaganna sjálfra og einnig á ummælum nefndar þeirrar, er hafði málið til meðferðar á þinginu 1922. í 2. gr. laganna frá 4. apríl 1922 segir svo: „Ráðherra getur með reglugerð sett ákvæði til varnar misbrúkun við sölu og veitingu þessara vína. Þó mega ákvæði þessi ekki ganga svo langt, að þau geri að engu undanþágu vínanna frá ákvæðum aðflutningsbannslaganna“.

Kröfur Spánverja hafa aldrei gengið lengra en það, að ekki yrðu gerðar þær ráðstafanir hjer, sem koma í veg fyrir það, að menn ættu aðgang að því að fá þessi vín keypt í landinu. Aldrei munu þeir, svo að mjer sje kunnugt, hafa sett fram neinar kröfur um ákveðna útsölustaði. Það virðist því óhugsandi, að það yrði talið brot á samningnum, þó ekki sje útsala á Siglufirði.

Til frekari árjettingar vil jeg skírskota til ummæla Einars H. Kvarans, sem var annar þeirra tveggja manna, sem sendir voru fyrir landsins hönd til þess að semja við Spánverja.

Í opinberri skýrslu, er hann gaf, er hann kom úr sendiförinni, segir hann m. a.: „Vjer verðum altaf að hafa það hugfast, að Spánverjar krefjast ekki neinna vínkaupa af sjer, heldur aðeins þess, að mönnum sje ekki hjer á landi bannað að afla sjer vínanna með einhverjum hætti. Ef Íslendingar fengjust til að neita sjer um vínin, þyrftum vjer engin vín að kaupa. Svo að samtök í þá átt eru engin samningsrof við Spánverja. Slík samtök eru eitt hið drengilegasta þjóðræknismerki, sem jeg get hugsað mjer á þessum tímum. En hvað sem því líður, verðum vjer líka að muna eftir því, að Spánverjar skifta sjer ekkert af þeim hömlum, sem vjer kunnum að leggja á áfengissöluna, ef ekki verður sagt, að breytingin frá bannlögunum sje engin í raun og veru. Ekki skifta þeir sjer af því, hvort útsölustaðir eru margir eða fáir, eða hverjum reglum salan er bundin“.

Þessi ummæli trúnaðarmanns landsins í þessu máli eru eftirtektarverð. Hann segir hiklaust, að Spánverjar skifti sjer ekkert af því, hvort útsölustaðir eru margir eða fáir. Svipuð ummæli koma fram í nál. þingnefndar þeirrar, er um málið fjallaði. Sú nefnd var skipuð 12 mönnum úr báðum deildum, og rannsakaði hún öll skjöl, er að málinu lutu. Í áliti nefndarinnar segir svo: „En nú er oss það fullkomlega heimilt að beita þeim ráðstöfunum til hóflegs innflutnings og umsjónar með sölunni, sem oss líst, svo framarlega sem það gerir ekki undanþáguna frá bannlögunum að engu“.

Þegar kunnugt er, að slík ummæli eru fyrir hendi frá þeim mönnum, er hafa kynt sjer mál þetta, er ekki undarlegt, þó að menn láti sjer ekki skiljast, að það sje brot á samningnum, ef útsala ríkisins á Siglufirði verði lögð niður. Og af því að jeg álít, að hjer verði ekki um brot að ræða, þá flyt jeg þessa till. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara lengra út í málið. Vænti jeg, að deildin vilji viðurkenna rjett Siglfirðinga í máli þessu og samþ. till.