08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í D-deild Alþingistíðinda. (3252)

77. mál, vínsala ríkisins á Siglufirði

Flm. (Einar Árnason):

Jeg skil þá ummæli hæstv. forsrh. (JM) svo, að hann sjái sjer ekki fært að sinna þessu máli. Jeg gat þó ekki fengið það út úr orðum hans, að það væri af því, að fleiri kaupstaðir mundu á eftir koma. En jeg tel vel forsvaranlegt að leggja niður vínsöluna á Siglufirði, þó það væri ekki gert annarsstaðar. Mjer finst vel hugsanlegt að gera upp á milli kaupstaðanna. Það kemur auðvitað ekki til mála að leggja niður alla sölu vínanna alstaðar á landinu. Það væri vitanlega brot á samningnum. En eftir opinberum skjölum, sem fyrir liggja, er ómögulegt að sjá, að nauðsyn hafi verið til að hafa svona marga útsölustaði. Þó má vel vera, að erfiðara sje að fækka þeim til muna, eins og nú er komið, en að hafa þá færri upphaflega. En jeg get ekki skilið, að nauðsyn beri til að halda í allar þær útsölur, sem nú eru starfandi.

Það verður því að fara um till. eins og deildinni sýnist. En jeg býst ekki við, þó að hún verði feld, að það sannfæri þá menn, sem álíta útsölustaðina óþarflega marga.